132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:40]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir koma upp og fagna þessari tillögu. hæstv. landbúnaðarráðherra um þjóðarblóm Íslendinga. Það var afskaplega skemmtilegt að hlusta á þá fróðlegu ræðu sem hann flutti hér sem greinargerð með tillögunni. Það er meiri samhugur í þingsalnum í dag en var í gær og það er alltaf mikil tilbreyting í því þegar þingmenn geta talað á jákvæðum nótum. Þakka ég ráðherra fyrir að hafa komið með svo jákvæða tillögu inn í þingið. Það veitti ekkert af í lok vikunnar.

Eins og hæstv. ráðherra sagði var mikil þátttaka í þessari kosningu og það sýnir að þjóðin hefur áhuga á þessu máli. Ég er ein af þeim sem telja að holtasóley sé svolítið tákn fyrir Íslendinga, þetta er blóm sem vex í hrjóstrugum jarðvegi. Það liggur við að maður verði var við nokkurn trega hjá fyrrverandi þingmanni Þjóðvaka, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, við að sjá þetta endurvakið en Þjóðvaki var með þetta blóm sem sitt tákn og sýnir það að hæstv. forseti er nokkuð mikil smekkmanneskja.

Þjóðarblómið er eitt af því sem við eigum að geta notað okkur á jákvæðan hátt, eins og hæstv. ráðherra sagði, í auglýsingarskyni fyrir landið. Mér þótti það líka nokkuð góð tillaga frá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að hver landshluti veldi sér sitt tákn, og þá vildi ég koma því að ég hef alltaf haft miklar mætur á blóðbergi. Ekki veit ég hvers vegna, en bæði er gott að búa til úr því te og eins er það afskaplega fallegt.

En ég lýsi bara ánægju minni með þessa tillögu og það verður skemmtilegt fyrir landbúnaðarnefnd að afgreiða þetta mál úr nefndinni.