132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er á ferðinni ágæt og snyrtileg tillaga til þingsályktunar um þjóðarblóm Íslendinga þar sem Alþingi ályktar að holtasóley skuli vera þjóðarblóm Íslendinga. Ég hygg að það sé samt nokkuð sérstakt að Alþingi kveði upp úr um að eitt blóm sé öðru fremur þjóðarblóm, því að við erum svo heppin, Íslendingar eins og reyndar flestar aðrar þjóðir og önnur lönd, að eiga margar fallegar blómjurtir og allur er gróðurinn fagur hver svo sem hann er, a.m.k. held ég að óhætt sé að segja það í öllum meginatriðum. Mér er í sjálfu sér ekkert ofboðslega umhugað um að gera upp á milli blóma með þessum hætti, því að ég tel að öll hafi þau gildi og séu þar jafningjar í góðri breiðfylkingu.

En það er nú svo að við höfum gaman af að vera með samkeppnir, hinar ýmsu tegundir af fegurðarsamkeppnum, og vissulega lita þær samfélagið, gleðja hugann og færa umræðuna oft upp í aðrar víddir. Þess vegna styð ég þessa þingsályktunartillögu um þjóðarblóm Íslendinga, eftir að hafa sagt það sem ég ætlaði að segja hér að öll blóm og allur gróður er okkur jafnkær, held ég. Það eru a.m.k. fáar undantekningar þar á og sem við höfum í sjálfu sér rétt til að halda fram.

Þetta er líka vel valið blóm og sérstaklega ánægjulegt að heyra og minnast þess að það var einmitt skagfirsk húsfreyja og kennari, Ásdís Sigurjónsdóttir, sem kom með þessa tillögu og … (Gripið fram í.) Já, já, ég veit að hæstv. landbúnaðarráðherra gerir mjög samviskusamlega og heiðarlega grein fyrir þessum málum. Engu að síður vil ég halda því áfram til haga að þetta var góð hugmynd úr Skagafirði, þó að hún gæti líka hafa komið góð frá öðrum landshlutum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að þetta sé hið besta mál og fagna því að holtasóleyin, sem berst á berangri, einmitt þar sem vindar leika harðast um, skuli vera valin þjóðarblóm.