132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Eins og aðrir sem hér hafa talað vil ég lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál af ýmsum ástæðum. Kannski fyrst og fremst þeirri að það vekur gleði. Oftar en ekki eru menn í þessum ræðustól eins og naut í flagi, skammast og deila og verða æstir mjög. En eins og við höfum heyrt þá kallar hugsunin á bak við þingmál þetta fram mikla ánægju og samhljóm meðal þingmanna, svo mikinn að hv. þm. Jón Bjarnason varð hálforðlaus af gleði. Það gerist ekki á hverjum degi.

En það er líka ástæða til að fagna því hvernig að valinu hefur verið staðið. Að því kemur grasrótarhreyfing sem unnið hefur með mjög lýðræðislegum hætti. Þjóðin hefur valið og út úr því kemur að hið fallega blóm holtasóley er valið þjóðarblóm. Það er með þessu þingmáli staðfest af hv. Alþingi.

Ég tel það líka jákvætt við þetta mál og aðdraganda þess að það vekur athygli á fegurð íslenskrar náttúru. Með þeirri lýðræðislegu aðferð sem var notuð var fólk hvatt til að hugleiða íslenska náttúru, þau fallegu blóm sem í henni eru. En bara við að velta vöngum yfir því beinir fólk augum sínum að náttúrunni, sem er jákvætt í sjálfu sér. Eins og fram hefur komið má nýta slíkt þjóðarblóm í markaðsátak, með smekklegri útfærslu í kynningu eins og við höfum séð ýmsar þjóðir gera. Það er jákvætt. Í þessu felst líka söguleg upprifjun eins og margsinnis hefur verið vikið að og beinist sérstaklega að hæstv. sitjandi forseta, með blómi þess stjórnmálaafls sem hún stofnaði.

Ég vil sömuleiðis taka undir þá ágætu hugmynd að skemmtilegt gæti verið að fara svipaða leið með einstaka landshluta. Hver landshluti á sitt sérkennisblóm. Meira þarf í sjálfu sér ekki um þetta að segja en ég kom aðallega upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál.