132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:48]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin þakka þær ágætu ræður og hinn góða stuðning sem málið hefur hlotið hér í dag. Það sýnir að öll erum við mannleg og höfum tilfinningar. Menn úr öllum stjórnmálaflokkum þingsins hafa lýst yfir samstöðu og áhuga á málinu. Þannig að öll erum við blómanna börn.

Hér kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að gert væri upp á milli blóma með þessum hætti. Það kann vel að vera rétt hjá honum. Um það hafa menn auðvitað hugsað. En málið hefur ákveðinn tilgang sem ég rakti í ræðu minni, að gera þessu blómi hátt undir höfði sem væri valið í lýðræðislegri kosningu, til að gera það að tákni landsins við hliðina á fánanum og þjóðsöngnum, þótt með öðrum hætti sé.

Ég rakti að í iðnaði og ýmsum markaðsverkefnum eru fyrirtæki áhugasöm um að auglýsa Ísland og íslenska náttúru í gegnum holtasóleyna. Þannig eigum við að geta náð árangri eins og margar þjóðir. En stærsta verkefnið á bak við þetta val er að vekja þjóðina til vitundar um náttúru Íslands, um landvernd, að þekkja blóm sín og grös þegar gengið er um tún og úthaga, fræða börn og unglinga um nöfnin á liljum vallarins og kenna þeim að þekkja land sitt. Það er mikilvægast.

Nú kann að vera að síðar velti menn því fyrir sér hvort annað blóm geti velt holtasóleynni úr sessi og hún hafi þann sess tímabundið. Þess vegna gæti aftur farið fram umræða og val eftir 5–10 ár, þar sem þjóðin færi aftur yfir stöðuna til að gá hvaða blóm eigi þá mesta þjóðarsamstöðu, eins og holtasóleyin átti í þessu tilfelli. Ég vona að landbúnaðarnefnd fari bara vel yfir þetta mál. Ég óska nefndinni til hamingju með að fá svo skemmtilegt mál til að fást við. Ég þakka enn og aftur, hæstv. forseti, þessar góðu umræður sem hér hafa spunnist um málið í dag.