132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[15:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf. Með frumvarpi þessu er lagt til að lög nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf., verði felld úr gildi.

Frumvarp til laga um Flugskóla Íslands hf. var samþykkt á vorþingi 1997 og tóku lögin gildi 29. apríl sama ár. Lögin kveða m.a. á um heimild samgönguráðherra til að beita sér fyrir stofnun hlutafélags um rekstur flugskóla sem nefnast skal Flugskóli Íslands hf. Í samræmi við ákvæði laganna var skólinn svo stofnaður sumarið 1998. Fyrir stofnun skólans var öll kennsla til bóklegra atvinnuflugmannsréttinda á hendi Flugmálastjórnar.

Auk ríkisins tóku Flugleiðir hf., Air Atlanta og Íslandsflug hf. og flugskólarnir Flugtak og Flugmennt þátt í stofnun og uppbyggingu skólans. Við stofnun skólans átti ríkið um 42% hlut í skólanum. Eftir að hluthafar í skólanum, aðrir en ríkið, lögðu til aukið hlutafé vegna rekstrarörðugleika lækkaði eignarhlutur ríkisins niður í um 22%. Síðasta vor seldi ríkið svo allt hlutafé sitt í skólanum til Flugtaks ehf., Air Atlanta hf. og Flugskóla Íslands hf. Skólinn er nú því alfarið í eigu einkaaðila eins og áform stjórnvalda um einkavæðingu gerðu ráð fyrir.

Í lögum um Flugskóla Íslands hf. er kveðið á um að samgönguráðherra skuli beita sér fyrir gerð samnings milli ríkisins og skólans þar sem nánar skuli kveðið á um það skólahald sem félagið á að sinna og hvernig greiðslum af hálfu ríkisins skuli háttað. Samkomulag um kennslu til atvinnuflugs var undirritað í lok árs 1998.

Þrátt fyrir að lagt sé til að lögin falli úr gildi er áfram gert ráð fyrir að ríkið stuðli að því að hér á landi sé í boði menntun sem geri nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs. Til að tryggja það vinnur ráðuneytið nú að gerð samnings við skólann um áframhaldandi styrk til hans vegna bóklegs atvinnuflugmannsnáms. Rekstur skólans gengur nú ágætlega og er talið að starfsemi hans sé mikilvæg lyftistöng fyrir framgang atvinnugreinarinnar hér á landi, en vöxtur flugstarfseminnar hefur verið mikill undanfarin ár.

Með hliðsjón af efni laganna og að ríkið hefur selt allt hlutafé sitt í skólanum er lagt til að lögin verði felld úr gildi. Skilvirkt eftirlit er af hálfu Flugmálastjórnar Íslands með gæðum skólastarfsins og starfsemi skólans og er það talinn fullnægjandi rammi um þessa starfsemi. Vegna mikilvægis flugsins í efnahagslífi þjóðarinnar er áfram gert ráð fyrir því að ríkið stuðli að því að hér á landi sé boðið upp á bóklegt atvinnuflugmannsnám. Slíkt verður tryggt með gerð samnings við Flugskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpið verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og samgöngunefndar.