132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[16:01]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og tel að þetta sé af hinu góða eins og kom fram í málflutningi hv. samgönguráðherra. Það eru alveg ótrúleg ævintýri að gerast í flugrekstri okkar Íslendinga og þörf á að vel sé haldið á menntunarmálum og ég er sannfærður um að þetta mál fær skjótt og gott brautargengi í gegnum samgöngunefnd.

Ég vil þó aðeins gera að máli mínu og taka undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni varðandi aðra menntunarleið þeirra sem koma að flugrekstrinum og það eru þeir sem stunda viðgerðir á flugvélum eða flugvirkjar. Það hefur líklega verið um 1980 eða upp úr því að Flugleiðir reistu heljarmikið flugskýli á Keflavíkurflugvelli. Öll innflutningsgjöld voru gefin eftir vegna þess að menn töldu að þarna væri væri stigið stórt og mikið spor, sem það að vísu var, með því að reisa stórt og mikið flugskýli til þess að auka enn viðgerðir á flugvélum á Íslandi.

Nú liðu tímar og þetta gekk allt fram en síðan fór því miður að stefna í óefni hvað þetta áhrærir og sú starfsemi sem ætlað var með eftirgjöf og innflutningsgjöldum af öllu byggingarefni til þessarar stóru og miklu flugskemmu, minnkaði mjög. Þess vegna tek ég alveg undir að það er nauðsynlegt að efla aftur nám flugvirkja hér á landi og vonandi að það skref verði stigið á næstu árum því að það gefur þessu mikla ævintýri okkar Íslendinga í flugmálum enn meira gildi og styrkir enn frekar atvinnuþætti okkar Íslendinga. Við verðum sannarlega að gæta okkar á að verða ekki of einhæf, samanber þann vanda sem við stöndum frammi fyrir t.d. varðandi farmennskuna.

Ég tek því heils hugar undir að þetta þarf að skoða en málið varðandi flugskólann er af hinu góða og mun auðvitað fá mjög jákvæða umræðu í hv. samgöngunefnd.