132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við eigum að fara varlega í að varpa allri ábyrgð á ökumenn þessara stóru bíla. Vegirnir sem þeir þurfa að aka eru bara alls ekki færir til þess að bera stóru bíla. Við finnum það aðrir sem keyrum eftir sömu vegum að það er ekkert spaug að mæta eða fara fram úr eða vera í umferð með þessum stóru bílum á þessum mjóu, þröngu vegum. Ég geri ekki lítið úr þessu. Ég tel þetta reyndar stórmál. Ég tel að það eigi og beri að skoða möguleika á strandsiglingum af alvöru. Við höfum ákveðið að stýra flugi á flugvelli innan lands og veita ákveðna lágmarksflugþjónustu. Sama væri hægt að gera með strandsiglingar.

Svo eru það eftirlitsmenn Vegagerðarinnar sem eiga að fá heimild til að stöðva akstur farmflutninga- og hópbifreiða. Þeir eru að fá visst löggæsluhlutverk. Ég vil því spyrja í fyrsta lagi: Fá þeir rétt til þess að beita stöðvunarljósum eða hvaða rétt hafa þeir og hvaða tækjum geta þeir beitt til að stöðva ökutæki? Geta þeir beitt lögregluljósunum, þessum blikkljósum sem hingað til hafa bara verið í höndum lögreglu? Ef svo er, hvernig er þá með tryggingar og annað slíkt fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar, þ.e. ef þeir eru farnir að taka á sig þá ábyrgð að svipta menn frelsi? Það að stöðva bifreið, hafa rétt til þess að stöðva bifreið skilyrðislaust, hafa rétt til þess að krefja um persónuleg gögn og gögn bifreiðarinnar er viss lögregluaðgerð. Ég ítreka (Forseti hringir.) spurningu mína, frú forseti: Hver er réttur þessara manna við slíkar aðstæður?