132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:42]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir undirtektir við frumvarpið. Ég vænti góðs samstarfs við samgöngunefnd vegna frekari vinnslu málsins. Það þarf að líta til margra hluta og eðlilegt að leita umsagnar og fá fulltrúa sem flestra til fundar við samgöngunefnd til að fara rækilega í gegnum málið.

En til að forðast misskilning er rétt að undirstrika, varðandi umfjöllun í 14. gr. frumvarpsins, að átt er við efni sem eru bönnuð samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni. Ég tel, vegna þess sem hér kom fram, að ágætt væri að fara vandlega yfir orðalagið á þessum greinum, ekki síst 14. gr. en hún er mjög viðkvæm. Með þessu frumvarpi herðum við reglur vegna notkunar ólöglegra fíkniefna til að reyna að koma í veg fyrir að fólk sem neytir slíkra efna setjist undir stýri. Við viljum undirstrika hve alvarlegt það er. Það má ekki fara á milli mála að þar er ekkert bil og það er algerlega bannað að setjast undir stýri á ökutæki eftir að hafa neytt slíkra efna. Þar er enginn afsláttur gefinn.

Ég held jafnframt að ágætt væri að hv. samgöngunefnd færi vandlega yfir það sem hér er getið um, um mælingar á ávana- og fíkniefnum svo sem eins og töku munnvatnssýna sem skiptir geysilega miklu máli og er forsenda fyrir því að geta rannsakað hvort um sé að ræða notkun ólöglegra ávana- og fíkniefna. Ég tók sérstaklega fram í ræðu minni að skoða þarf hvort heimila eigi notkun nýrrar tækni sem bent hefur verið á og samgöngunefnd gæti farið yfir það með kunnáttufólki.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að lengja umræðuna og þakka fyrir undirtektir hv. þingmanna.