132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Síðastliðinn föstudag þegar verið var að ræða frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs gagnrýndu hv. þingmenn að þrátt fyrir það að gerð væri grein fyrir því að tekjuáhrif frumvarpsins væru í samræmi við tekjuáætlun fjárlaga væri ekki nægjanlega vel gerð grein fyrir tekjuáhrifunum. Því var að sjálfsögðu ljúfmannlega tekið og lofað að upplýsingum yrði komið á framfæri við hv. nefnd en þar sem þetta tækifæri gefst er rétt að það komi fram að tekjuáhrifin eru 37 millj. kr.

Í síðustu ræðunni í umræðunni gagnrýndi hv. þm. Jón Gunnarsson fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið og sakaði reyndar ráðherrann og ráðuneytið um að fara ekki eftir lögum um að meta kostnaðaráhrif stjórnarfrumvarpa. Þetta hljómaði ekki alls kostar kórrétt í mín eyru en þar sem ég þorði ekki að treysta á minni mitt sat ég frekar á mér en að fara rangt með (KLM: Eins og í skattamálum.) en ef hv. þingmenn gæfu hljóð er staða mála sú að um þetta eru ekki neinar lagagreinar heldur er það samkvæmt ríkisstjórnarákvörðun að lagt er kostnaðarmat á frumvörpin og þá er um að ræða mat á þann kostnað sem frumvörpin hafa í för með sér. Ásakanir hv. þingmanns voru þar af leiðandi ekki á rökum reistar en hins vegar er það að sjálfsögðu siður ráðuneytisins að gera grein fyrir tekjuáhrifum frumvarpa líka og að þessu sinni var það gert með tilvísun í tekjuáætlun fjárlaga.

Ég taldi rétt, frú forseti, þar sem þessi misskilningur kom fram, að leiðrétta það hér því að ég tel að kostnaðarmatið sé mjög nauðsynlegt tæki, bæði fyrir hæstv. ráðherra og hv. þingmenn, þegar verið er að taka ákvarðanir um frumvörp sem hafa áhrif á útgjöld ríkisins.