132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:07]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér upp og beina kastljósinu að því litla frumvarpi sem við ræddum á föstudaginn, frumvarpi sem felur í sér talsverða tekjuhækkun fyrir ríkið og álögur á ákveðinn hóp manna um 37 millj. kr., en um er að ræða gjöld sem greiða þarf fyrir íslenskan ríkisborgararétt og fyrir að sækja um dvalarleyfi.

Ég gagnrýndi það, og það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, hve umsögn fjármálaráðuneytisins væri rýr um þetta frumvarp. Ég spurði sérstaklega um hvaða forsendur lægju að baki, hvort ekki lægju einhverjar forsendur að baki þeim hækkunum sem verið var að kynna, en t.d. er verið að hækka það að sækja um ríkisborgararétt á Íslandi úr 1.350 kr. upp í 10 þús. kr. Það verður að segja hvern hlut eins og hann er að hæstv. ráðherra gat ekki svarað því af hverju verið væri að hækka þetta um þessa krónutölu. Hann gat ekki svarað því hvert magnið væri sem lægi þarna á bak við og ég varð að gagnrýna það að hér væri lagt fram frumvarp með þessum miklu hækkunum án þess að fyrir lægi einhver greining af hálfu ráðuneytisins um af hverju svo væri.

Hæstv. ráðherra mundi kannski ekki frekar en ég hvort það væri í lögum að fjármálaráðuneytið ætti að koma með umsögn um stjórnarfrumvörp. En úr því að svo er ekki langar mig að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji ekki fulla þörf á því að fest verði í lög að fjármálaráðuneytið skuli koma með bæði tekju- og kostnaðarumsögn um stjórnarfrumvörp og þá ekki síður um frumvörp sem snerta sveitarfélögin og atvinnulífið í landinu. Er ekki full ástæða til þess, fyrst ráðuneytið gengur svona létt um þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar og oft hefur maður gagnrýnt það hvernig umsagnirnar eru, að setja það hreint og klárt í lög með mjög skýrum ákvæðum hvað það er sem þarf að koma fram og til hvaða hluta þarf að taka afstöðu?