132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:13]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Sú regla hefur lengi verið við lýði að kostnaðaráætlun hefur fylgt útgjaldafrumvörpum ríkisstjórnarflokka og er ekkert nema gott um það að segja og sjálfsagt og er auðvitað alveg óþarfi að lögfesta það. Alþingi getur haft sínar vinnureglur og sínar hefðir án þess að þurfa að setja það allt saman í lagabókstaf. Ég held þess vegna að það sé alveg óþarfi að setja um þetta sérstaka löggjöf. Ég vil líka nefna að það hefur ekki verið til siðs að kostnaðaráætlun fylgi tekjuöflunarfrumvörpum.

Þar sem hv. 5. þm. Norðaust. fór með háar prósentutölur, 800% eða eitthvað svoleiðis, þá er það vegna þess að um svo lágar fjárhæðir er að tefla að honum finnst óskynsamlegt að nefna tölur í því sambandi heldur að rétt sé að nefna prósentur til að reyna að gera mikið úr því sem lítið er. Það getur verið að honum finnst það mikið að nýr ríkisborgari eða sá sem fær ríkisborgararétt á Íslandi þurfi að borga 10 þús. kr. fyrir allt það umstang sem því fylgir. Mér finnst það ekki mikið en það er auðvitað vegna þess að við höfum ekki sömu lífsskoðun. Ég tel sjálfsagt að menn greiði fyrir þá þjónustu sem menn fá í grófum dráttum. Mér finnst rétt að stundum sé komið til móts við neytanda og þjónustan niðurgreidd að einhverju leyti en mér finnst ekki að þjónusta eigi að vera algerlega ókeypis. Sumir eru þeirrar skoðunar að í grófum dráttum eigi allir að fá allt frá ríkinu fyrir ekkert en ég er ekki í þeim hópi.