132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Frumvarp um aukatekjur ríkissjóðs.

[15:21]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessar umræður eru farnar að taka á sig undarlegan blæ. Ætli það séu ekki 45 ár síðan ég fór fyrst að fylgjast með umræðum hér á Alþingi og allan þann tíma hafa ríkisstjórnir reynt að gera grein fyrir hvaða áhrif tekjuöflunarfrumvörp, sem lögð eru fyrir þingið, hafa. Menn hafa verið ósammála um það hvort fjármálaráðherra hafi túlkað áhrif skattatillögu rétt eða ekki. Gleggsta dæmið um það er þegar tekjuskatturinn var lækkaður úr 30% niður í 18% og stjórnarandstaðan hélt því fram að það mundi hafa í för með sér minni tekjur ríkissjóðs af fyrirtækjum en áður. Á daginn kom að tekjur ríkisins stórjukust vegna þess að fleiri fyrirtæki greiddu tekjuskatt en áður, eins og við vitum, og vegna þess að þetta olli því að erlend fyrirtæki, jafn vel sett, juku starfsemi sína hér vegna þess góða skattalega umhverfis sem hér er.

Á hinn bóginn verð ég að segja við hv. þm. Sigurjón Þórðarson að ég vildi gjarnan vera viðstaddur ef hæstv. fjármálaráðherra tæki þingmanninn í læri um ríkisfjármál, og fundinum lyki svo að hv. þm. Sigurjón Þórðarson kæmist til botns í dæminu. Það mundi mér þykja hróss vert fyrir hæstv. fjármálaráðherra og þá held ég að hv. þm. Sigurjón Þórðarson yrði líka mjög glaður.