132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Upplýsingar Landsvirkjunar um arðsemi.

[15:27]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þótt ég kveðji mér hljóðs undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta, er ekki beinlínis við forseta þingsins að sakast í þessu efni. Ég vil vekja athygli forseta Alþingis á því að ég beindi einfaldri spurningu til hæstv. forsætisráðherra um það hvort honum þætti ekki eðlilegt að Alþingi og þær þingnefndir sem hafa með virkjunarmálin og efnahagsmálin að gera fái umbeðnar upplýsingar, þ.e. á hvaða forsendum forstjóri Landsvirkjunar og ráðherrar í ríkisstjórninni, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, byggi upplýsingar sínar og staðhæfingar.

Ég gæti farið út í viðræður hér við hæstv. forsætisráðherra um nákvæmar arðsemistölur sem hann hikar ekki við að setja hér fram í framkvæmd sem er ekki enn lokið og ekki fyrirséð hvað kemur til með að kosta. (Gripið fram í: Um fundarstjórn forseta?) Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir en engu að síður er forstjóri Landsvirkjunar og (Gripið fram í.) fulltrúar ríkisstjórnarinnar tilbúnir að reiða fram upplýsingar (Forseti hringir.) í nákvæmum prósentutölum. Þetta er óeðlilegt og ég tel eðlilegt að þingið (Forseti hringir.) fái upplýsingar eins og um er beðið.

(Forseti (SP): Að gefnu tilefni vill forseti minna hv. þingmenn á það að ræða um fundarstjórn forseta þegar þeir kveðja sér hljóðs undir þeim merkjum.)