132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[15:53]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég var dálítið undrandi á því að heyra talsmann Samfylkingarinnar hér áðan, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, bregðast svona neikvætt við nefndarskipun forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Ég hefði haldið að flokkur umræðu- og samræðustjórnmála væri því afar fylgjandi að fara þá leið til að ná niðurstöðu í þessu máli sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um að sé æskilegt markmið.

Ef við skoðum skýringar á háu matvælaverði hér á landi held ég að þær séu að einhverju leyti náttúrulegar. Við erum með smærri markað en víða, við erum með ákveðna fjarlægð frá löndum í kringum okkur, við erum hugsanlega með verri aðstæður til ýmiss konar landbúnaðarframleiðslu en aðrir. En það er alveg rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að þetta skýrir stöðuna ekki nema að hluta. Við vitum að á þessu sviði skipta opinberar samkeppnishömlur ákveðnu máli, bæði innflutningsvernd með tollmúrum, samkeppnishömlur sem lúta að landbúnaðinum sjálfum og gera það að verkum að ekki gilda sömu lögmál í landbúnaðinum og í flestum öðrum atvinnugreinum. Það skiptir líka máli, eins og komið hefur fram, að hér eru ýmiss konar skattar lagðir á matvæli sem hækka vöruverðið og það skiptir enn fremur máli að hér er fákeppni á markaðnum sem gerir það að verkum að lögmál markaðarins njóta sín ekki eins og ella væri.

Ég held að það sé ástæða til að fagna því sem fram hefur komið, bæði af hálfu hæstv. forsætisráðherra hér áðan og raunar áður af hálfu bæði hæstv. fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, að ástæða sé til að endurskoða vörugjaldaþáttinn sérstaklega. Ég bendi líka á virðisaukaskattinn því að ýmsar matvörur lenda í efra þrepi virðisaukaskatts og auðvitað hefur það áhrif á verð til neytenda.

Síðan er afar mikilvægt (Forseti hringir.) að við skoðum hinar opinberu samkeppnishömlur með það að markmiði að sömu lögmál gildi í þessari atvinnugrein og öðrum.