132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Tæki stjórnvalda til að stuðla að lækkun matvælaverðs á Íslandi.

[16:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Út af þessari síðustu spurningu sem kom frá hv. þingmanni þá er nefndin að skoða og útbúa verk- og tímaáætlun. Ég vænti þess að nefndin geti skilað áliti sínu síðar á þessu ári. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að tillögur frá henni gætu legið fyrir næsta haust og ég vænti þess að svo verði.

En út af þeirri umræðu sem fer fram um matvælaverð hér á landi — þó að það sé rétt að það sé almennt hærra en við skulum segja t.d. í Suður-Evrópu — þá eyðir íslenska fjölskyldan lægra hlutfalli af sínum ráðstöfunartekjum til matvælainnkaupa en t.d. fjölskyldur í Suður-Evrópu. Á árinu 2004 var það liðlega 16% hér á landi en í landi eins og Spáni, þar sem matvælaverð er mun lægra, er hlutfallið mun hærra. Það er nú þannig að velmeguninni fylgir hærra verðlag og það á bæði við um Ísland og Noreg. Í Noregi er matvælaverð mun hærra en annars staðar, en við skulum hafa í huga að Noregur og Ísland hafa trónað í efstu sætunum yfir velmegun í heiminum.

Það er líka misskilningur að framlög til landbúnaðarmála hér á landi séu miklu hærri en almennt gerist. Það er rétt að hafa í huga að á árinu 1990 voru framlög til landbúnaðarmála 8,6% af fjárlögum en á árinu 2003 voru framlög til landbúnaðarmála 3,8%. Þau hafa farið mjög lækkandi á undanförnum árum og áratug og eru nú ekki almennt hærri en gengur og gerist í öðrum löndum í kringum okkur.