132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Heyrnar-, tal- og sjónstöð. Meginmarkmið frumvarpsins er að sameina Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, Sjónstöðina, í eina stofnun undir stjórn eins forstöðumanns, sem lýtur yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Rekstrarleg stjórnun stofnananna verður sameinuð, en fagleg starfsemi og þjónusta við skjólstæðinga verður leidd af fagfólki eins og verið hefur. Rökin fyrir sameiningunni eru einkum þau að með henni náist hagræðing sem styrki bæði faglega og rekstrarlega starfsemi beggja stofnana til lengri tíma litið. Báðar rekstrareiningarnar eru fremur litlar og óhagkvæmar, sérstaklega þó Sjónstöðin, en illa hefur gengið að halda rekstri hennar innan ramma fjárlaga síðustu árin. Rekstur Heyrnar- og talmeinastöðvar hefur hins vegar gengið vel upp á síðkastið. Með sameiginlegri yfirstjórn, sameiningu stoðdeilda og samnýtingu húsnæðis verður mögulegt að nýta fé sem nú fer til rekstrar til að efla þjónustu við skjólstæðinga. Þá auðveldar sameiningin aðgengi að þjónustunni, einkum fyrir þá sem þurfa á þjónustu beggja stofnana að halda. Þar er um að ræða daufblinda og aldraða, en aldraðir eru stærsti einstaki hópurinn sem sækir þjónustu á báða staði, u.þ.b. 65%–75%.

Við samningu frumvarpsins voru núgildandi ákvæði um Heyrnar- og talmeinastöð í lögum um heilbrigðisþjónustu höfð til hliðsjónar. Ákvæðunum er breytt og þau samræmd þannig að þau nái einnig til blindra, sjónskertra og daufblindra auk þeirra sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir eða eru með heyrnarmein og talmein. Það er nýmæli að tilgreina sérstaklega rétt daufblindra til þjónustu nýrrar stofnunar. Þeirra er ekki sérstaklega getið í núgildandi lögum þó að reyndin sé sú að þeir hafi notið þjónustu á báðum stofnununum. Talmeina er sérstaklega getið án beinnar tengingar við heyrnarmein. Þannig er talmeinum nú ætlað meira rými í nýrri stofnun. Þá er lagt til að felld verði brott ákvæði um rekstrarleyfi til að annast þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta, enda er talið óþarft að sérákvæði séu um leyfi til að reka slíka starfsemi.

Helstu breytingar frá gildandi lögum eru þær að í frumvarpinu eru felld brott ákvæði um fagráð hjá Heyrnar- og talmeinastöð og stjórn Þjónustu- og endurhæfingarstöðvar sjónskertra en í staðinn er lagt til að faglegir yfirmenn skipi framkvæmdastjórn stofnunarinnar ásamt forstöðumanni. Er það í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Lagt er til að reglur um gjaldtöku af skjólstæðingum sameinaðrar stofnunar verði óbreyttar.

Frumvarpið er samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samvinnu við forstöðumenn Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar og annað fagfólk stöðvanna. Meðan á þeirri vinnu stóð voru haldnir samráðsfundir með fulltrúum samtaka notenda frá Félagi heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, Félaginu Heyrnarhjálp, Daufblindrafélagi Íslands og Landssambandi eldri borgara. Helstu athugasemdir sem fram komu á þeim fundum sneru að réttarstöðu barna, þjónustustigi, hjálpartækjum, endurhæfingu og gjaldtöku. Var tekið tillit til þeirra athugasemda eftir því sem við átti.

Að lokum þetta: Ég tel nauðsynlegt að finna nýtt húsnæði fyrir sameinaða stofnun en það felur í sér aukna möguleika á nýsköpun í starfsemi hennar enda er núverandi húsnæði óhentugt. Þá er í frumvarpinu lagt til að starfsmönnum sem nú starfa hjá Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð verði boðið starf hjá nýrri stofnun. Auk þess er lagt til að núgildandi lög um Sjónstöð, þ.e. Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, og 37. gr. a og b laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og Heyrnar- og talmeinastöð verði felld úr gildi við gildistöku nýrra laga um starfsemi sameinaðrar stofnunar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið lauslega yfir ástæður þess að ég legg fram frumvarp um Heyrnar-, tal- og sjónstöð. Ég tel mikilvægt að frumvarpið nái fram á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar til skoðunar og meðferðar og til 2. umr.