132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:13]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvers vegna hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja niður Sjónstöð Íslands, þá góðu þjónustustofnun sem veitir á annað þúsund Íslendingum þjónustu. Ég veit af eigin reynslu að stofnunin veitir góða þjónustu og af þekkingu á notendahópnum veit ég að það er mikil ánægja með þjónustuna. Þetta gerir hæstv. heilbrigðisráðherra að því er mér heyrist einvörðungu með tilvísun til hagræðingar og við í fjárlaganefndinni ættum þá væntanlega að gleðjast við framtakið.

Í skýrslu viðskiptaráðsins til viðskiptaþings nýverið kemur fram að í 13 síðustu sameiningum ríkisstofnana frá 1999, þar af mörgum á vegum heilbrigðisráðuneytisins, hafi kostnaður aukist að meðaltali um 8% við nafnbreytingar og sameiningar. Í öllum 13 tilfellunum sem skoðuð eru jókst kostnaðurinn við sameiningar eða nafnbreytingar en minnkaði ekki, þvert gegn því sem haldið var fram í mörgum málunum hér í þingsal. Ég hlýt þess vegna að krefja hæstv. heilbrigðisráðherra um að svara því hvaða hagræðingu hann er að tala um, því að af starfsemi Sjónstöðvar sé ég ekki hvaða hagræðing felst í því að leggja hana niður. Ég sé hins vegar að ráðherrann hefur þegar uppi talsverðar kostnaðarhugmyndir við að koma upp nýju húsnæði fyrir hina sameinuðu stofnun væntanlega með tilheyrandi aukakostnaði fyrir ríkissjóð. Hvaða hagræðing nákvæmlega, hæstv. heilbrigðisráðherra, er hér á ferðinni?