132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta hv. þingmann í því að það er ekki verið að leggja Sjónstöðina niður heldur sameina þessar tvær stofnanir, það er meginmunur á því. Starfsemi Sjónstöðvarinnar verður að sjálfsögðu rekin áfram og það er ekki verið að leggja stöðina niður.

Það er verið að vitna í viðskiptaþing. Ég las umrædda skýrslu, sem er viðamikil, um sameiningar og vil vara við því að taka þau fræði mjög alvarlega jafnvel þó að miklir forstjórar og fræðimenn hafi fjallað þar um málin. Mér sýnist skýrslan í fljótu bragði vera tóm vitleysa. Þar stendur að Lýðheilsustöð hafi átt að auka kostnað um 18 milljónir en séu 63. Ég sé ekki að það sé tekið nokkurt tillit til þess að tóbaksvarnaráð t.d. innan Lýðheilsustöðvar hefur markaða tekjustofna sem vaxa til aukinna verkefna. Ég sé ekki að það sé nokkurt tillit tekið til þess. Ég hef því mikla fyrirvara um þessi fræði jafnvel þó að það sé viðskiptaþing sjálft sem gefur út þessa fallegu skýrslu.

Aðalatriðið er að ég vil efla starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar og nota það sameiginlega sem hægt að nýta sameiginlega, þau samlegðaráhrif sem eru af þessum stöðvum báðum. En það er ekki verið að leggja Sjónstöðina niður ekki frekar en Heyrnar- og talmeinastöðina. Það er verið að sameina þessar stofnanir og ég vona að það verði til góðs fyrir notendur.