132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:37]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér í 1. umr. Ég tel að það séu mörg góð rök fyrir því að sameina Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð og get með engu móti kvittað undir það sem kom fram áðan hjá einum hv. þingmanni að verið væri að leggja niður Sjónstöðina. Það er ekki verið að leggja niður neina þjónustu eins og ég skil málið, það er verið að sameina þá þjónustu sem fyrir er til að efla hana. Þetta er því jákvætt frumvarp. Samkvæmt frumvarpinu á að sameina þessar tvær stöðvar, þessar rekstrareiningar eru báðar frekar litlar og óhagkvæmar í rekstri, sérstaklega kannski Sjónstöðin eins og hér hefur komið fram. Mér skilst að á Sjónstöðinni vinni u.þ.b. 10 manns eða innan við það. Á Heyrnar- og talmeinastöðinni vinna í kringum 15 manns, kannski 13–15 manns. Þetta eru því ekki mjög stórar stofnanir og því mjög eðlilegt að það sé skoðað að sameina þær til að efla þjónustuna og reyna að nýta það fé sem best sem til þeirrar þjónustu fer. Ég er því ekki eins viðkvæm fyrir orðinu hagræðing og hér kom fram áðan. Ég tel að það sé skylda okkar að reyna að nýta það fé sem við höfum á milli handanna, fé skattborgaranna, til að efla þjónustu við skjólstæðingana. Það er grundvöllurinn á bak við þetta frumvarp.

Með frumvarpinu á að styrkja þessar stofnanir faglega, þ.e. stærri stofnun hefur í för með sér aukna faglega breidd og styrkleikar hvorrar stöðvar fyrir sig ættu að nýtast til að efla þjónustu í sameinaðri stofnun. Hér yrði líka um bætt aðgengi að ræða fyrir þá sem þurfa að fara á báða staðina þannig að menn þyrftu þá ekki að hlaupa á milli þessara tveggja staða, heldur gætu farið á einn stað, en það eru einkum aldraðir sem sækja þessa þjónustu, í kringum 65–75%. Það er líka nýmæli að kveðið sé á um rétt daufblindra í lögum og það er einnig lögð aukin áhersla á talmein með því að stofna þessa nýju Heyrnar-, tal- og sjónstöð. Komið hefur fram hér að finna eigi nýtt húsnæði fyrir sameinaða stofnun. Núna er Sjónstöðin í Hamrahlíð 17 og Heyrnar- og talmeinastöðin á Háaleitisbraut 1. Það mætti gjarnan koma fram í seinni ræðu ráðherra hvort búið sé að skoða einhverja möguleika á hvar þessi nýja stöð gæti verið staðsett, hvort leit að nýju húsnæði sé hafin og hvort það sé eitthvað sem hægt væri að upplýsa núna. Ef svo er ekki, hve langt sé í að menn komist að niðurstöðu í því máli, þ.e. að því gefnu að við að mundum samþykkja frumvarpið á vorþinginu.

Gallarnir við svona mál eru að sjálfsögðu þeir að sameining skapar að sjálfsögðu óvissu, bæði fyrir þá sem vinna á viðkomandi stöðvum og þá sem sækja þjónustu til þeirra. Það er alltaf svo þegar verið er að sameina stofnanir eða starfsemi að það skapar ákveðna óvissu. Það er því ekkert skrýtið að fólk staldri við og vilji fylgjast með því sem verið er að gera. En hugsunin á bak við frumvarpið er mjög jákvæð að mínu mati, þ.e. að efla þjónustuna með sameiginlegum rekstri í einni stöð.

Á sínum tíma kom ég að svona sameiningu á öðrum vettvangi. Mig langar til að rifja það aðeins upp. Það var þegar nokkrar stofnanir voru sameinaðar í eina. Um var að ræða Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóraembættið og hreindýraráð. Þessar stofnanir voru sameinaðar í Umhverfisstofnun. Það gekk mjög vel en að sjálfsögðu var óvissa og óöryggi meðan á því stóð, bæði hjá starfsmönnum og líka þeim sem þjónustunnar nutu af hendi þessara fjögurra aðila. En ég held að enginn vildi ganga það skref til baka í dag. Það hefur orðið til mjög öflug stofnun út úr því, Umhverfisstofnun, sem er miklu færari til að takast á við mál en hinar stofnanirnar voru á sínum tíma hver í sínu lagi. Það var mjög jákvætt skref.

Það er eitt sem ég velti fyrir mér varðandi frumvarpið. Það er ákvæðið um framkvæmdastjórn sem kemur fram í 3. gr. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Faglegir yfirmenn skipa framkvæmdastjórn stofnunarinnar undir stjórn forstöðumanns, samkvæmt nánari ákvæðum í skipuriti. Framkvæmdastjórn er forstöðumanni til ráðgjafar og hefur hann samráð við hana um allar mikilvægar ákvarðanir varðandi faglega starfsemi stofnunarinnar.

Framkvæmdastjórn boðar til samráðsfunda með fulltrúum samtaka notenda eigi sjaldnar en einu sinni á ári.“

Það er svolítið óvenjulegt að hafa slíka framkvæmdastjórn og að mörgu leyti má segja að það sé hálfgerður galli. Þetta er ekki sá stjórnunarstrúktúr sem venjulega er á stofnunum. En ég býst við að þetta sé sett upp svona hér vegna þess að það var framkvæmdaráð, eða fagráð, held ég að það hafi heitið. Þetta er líklega einhvers konar framkvæmdastjórn til að koma til móts við framkvæmdaráðið, væntanlega er verið að freista þess að tryggja hér aðkomu samtaka notenda af því að ákvæðið um fagráðið fellur brott. Mér finnst svolítið umhugsunarvert að hafa slíka framkvæmdastjórn í stofnun af þessu tagi. Væri ekki nóg að hafa forstöðumann og yfirmenn fagsviða og forstöðumaður mundi sinna starfseminni eins og eðlilegt er á stofnunum af þessu tagi og menn gætu síðan haft þetta samráð við hagsmunahópana án þess að vera með eitthvað sem heitir framkvæmdastjórn? Mér finnst þetta umhugsunarvert og væri ágætt ef ráðherra vildi bregðast eitthvað því, hvort hann telji þetta mjög mikið atriði í þessu frumvarpi eða ekki.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti tel ég að hér sé um mjög gott mál að ræða og tel að þeir skjólstæðingar sem núna leita til Heyrnar- og talmeinastöðvar og Sjónstöðvar þurfi ekkert að óttast. Þetta er mál sem lagt er fram til að efla starfsemina, styrkja hana á alla kanta, og til að bæta þjónustuna en alls ekki til að minnka hana. Ég veit að áhersla ráðherra er ekki að minnka þjónustuna, áherslan er að sjálfsögðu að auka hana og efla og að nýta fjármagnið eins vel og hægt er með því að sameina þessar stöðvar í eina.