132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[16:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum að sjálfsögðu saman, ég og hæstv. félagsmálaráðherra. Ég er ekki í stakk búinn til þess að ræða þetta mál hér undir þessum lið og hvaða hluta af þjónustu við langveik hann hefur í huga að flytja, það er að sjálfsögðu ekki sama hvað það er. Ég er þeirrar skoðunar að það sé til þæginda fyrir aðstandendur langveikra barna að sækja þjónustuna á einn stað þar sem það þarf að ganga til þess persónulega. En ég reikna með því, án þess að ég sé inni í þessu máli í smáatriðum, að það séu einhvers konar fjarskipti sem þá er ætlunin að reka annars staðar frá. Að sjálfsögðu ræðum við hæstv. félagsmálaráðherra það mál. En ég veit um einlægan vilja hans til þess að bæta þjónustuna við langveik börn þannig að ég óttast ekki að meiningin sé að draga úr henni.

Eldri borgarar komu á fund til okkar þegar við vorum að undirbúa frumvarpið. Þeir lýstu almennum fyrirvörum í útvarpsviðtali sem ég er með afrit af en það eru að sjálfsögðu almennir fyrirvarar sem skýrast við nánari vinnslu málsins og ég tel það alveg eðlilegt að menn (Forseti hringir.) vilji fylgjast með málinu og hafa almenna fyrirvara um hvernig því lyktar.