132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Heyrnar-, tal- og sjónstöð.

514. mál
[17:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki fær um að taka hér upp umræðu undir verksviði annarra ráðuneyta, en vissulega skarast mörg verkefni okkar og félagsmálaráðuneytis og við höfum ágætt samband við félagsmálaráðherra um þau efni. Kannski kemur einhvern tímann sá dagur að þessi tvö ráðuneyti verði sameinuð í velferðarráðuneyti. Sá dagur er ekki kominn. Þá er hægt að ræða þetta allt saman undir þessum lið.

Varðandi málefni aldraðra þá að sjálfsögðu kallar heilbrigðis- og trygginganefnd í þá sem hún telur vera gagn af, þá sem hún telur að komi með innlegg í málið. En ég endurtek að ég hélt fund með þessum aðilum og sá fundur var prýðilegur. Menn vildu vanda sig við þetta og báðu um að það yrði gert og menn lögðu sitt til málanna. Mér fannst ekki vera hörð andstaða við þetta mál en að sjálfsögðu kallar nefndin í þá sem henni finnst þurfa að kalla til í framhaldinu.