132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

53. mál
[17:05]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum, mál sem gengið hefur undir nafninu um brottvísun og heimsóknarbann. Þetta er nú reyndar í þriðja sinn sem ég legg þetta mál fram. Það var á 130. löggjafarþingi sem málið var sent út til umsagnar og bárust eitthvað um eða yfir 15 umsagnir sem ég mun víkja síðar að í máli mínu.

Málið gengur út á að heimila lögreglu að vísa manni brott af heimili sínu og nánasta umhverfi þess og banna honum að koma þangað aftur í tiltekinn tíma ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann beiti náinn aðstandanda ofbeldi, hóti ofbeldi eða sýni framferði sem spillir mjög líkamlegu heilbrigði, andlegu heilbrigði, heilsu eða friði þess manns eða barns sem í hlut á.

Brottvísunin og heimsóknarbannið getur gilt í 10 sólarhringa og það ber að skilgreina sérstaklega til hvaða svæðis þetta bann eigi að ná og lögreglan skal, samkvæmt. þessu frumvarpi, innan eins sólarhrings, vísa ákvörðuninni til héraðsdómara sem skal kanna ástæður fyrir henni og staðfesta ef rökstuðningur er fullnægjandi en fella niður eða breyta að öðrum kosti. Komi síðan fram krafa frá brotaþola um framlengingu skal beina henni til héraðsdómara þannig að það verði þá héraðsdómari sem heimili þá framlengingu til allt að þriggja mánaða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Síðan er gert ráð fyrir að um meðferð máls vegna framlengingar á brottvísun og heimsóknarbanni fari samkvæmt reglum þessa kafla um nálgunarbann.

Hér er auðvitað um að ræða ákveðna útfærslu á nálgunarbanni. Eins og greint er frá í greinargerð með frumvarpinu á málið rætur sínar að rekja til Austurríkis en þar var ákvæði af þessu tagi upphaflega lögfest árið 1997 og síðan hafa löndin í kringum okkur verið að taka upp sambærileg ákvæði. Bæði er búið að taka þetta upp í norsk og sænsk lög. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða fleiri lönd hafa tekið þetta upp en hygg að nokkur lönd í Evrópu hafi þegar tekið þetta upp eða séu um það bil að gera það.

Ég hef, virðulegi forseti, fagnað þeim málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra sem birst hefur á þessu þingi varðandi heimilisofbeldi. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum um heimilisofbeldi á þskj. 419. Ég hef í sjálfu sér fagnað því að hreyfing skuli komin á málið í dómsmálaráðuneytinu, en ég hef jafnframt lýst því yfir að það þurfi að gera miklu meira en hæstv. ráðherra leggur til ef við ætlum í alvöru að vinna gegn heimilisofbeldi. Ég tel að í málatilbúnað hæstv. ráðherra skorti heildstæðari sýn, heildstæða nálgun á kynbundið ofbeldi og tel nauðsynlegt að skoða alla þætti þessara mála. Það þarf að skoða heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, ofbeldi gegn öldruðum og alla þá þætti sem nefndir eru í aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem ákveðinn aðgerðahópur hefur lagt fram.

Þeir aðilar sem barist hafa hvað harðast í samfélaginu fyrir því að breytingar verði á þessum málum eru kvennasamtök af ýmsu tagi, mannréttindasamtök sem m.a. hafa sent áskoranir til stjórnvalda og haldið af því tilefni 16 daga átak undanfarin tvö ár gegn kynbundnu ofbeldi þar sem þess er krafist að þessi mál fái annan sess og veigameiri en þau hafa haft hingað til hjá ríkisstjórninni. Nokkrir þeirra aðila sem hafa staðið að þessu 16 daga átaki voru fengnir á sínum tíma til að gefa umsögn um þetta frumvarp í hv. alþjóðanefnd. Mig langar til að blaða aðeins í þeim umsögnum, en þær voru, verð ég að segja, afar jákvæðar og tóku vel í hugmyndir sem hér eru settar fram. Þeir sem sendu inn umsagnir voru barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Fangelsismálastofnun ríkisins, Femínistafélag Íslands, barnaverndarnefnd Ísafjarðarbæjar, Kvennakirkjan, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Lögmannafélag Íslands, félagsmálanefnd Mosfellsbæjar, ríkissaksóknari, Stéttafélag íslenskra félagsráðgjafa, Stígamót, Samtök um kvennaathvarf og umboðsmaður barna.

Eins og ég sagði áðan voru umsagnirnar almennt afar jákvæðar í garð frumvarpsins. Nokkrar breytingar voru lagðar til í nokkrum af þessum umsögnum og ég, sem fyrsti flutningsmaður, beitti mér fyrir því að þær voru allar að miklu leyti teknar upp í það frumvarp sem ég nú mæli fyrir, og gleymdi að geta í upphafi máls míns að er flutt af öllum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hér sátu 1. október þegar þing kom saman.

Umsögn sú sem ég ætla að leyfa mér að vitna í hér úr ræðustóli Alþingis er frá Stígamótakonum sem fagna því að mál af þessu tagi sé komið fram. Þær segja réttilega að þær hafi óskað eftir því við þingheim síðustu þrjú ár að lögum um nálgunarbann verði fylgt eftir þannig að þau nái líka yfir þá ofbeldismenn sem enn eru í sambúð með þeim konum sem þeir beita ofbeldi. Þó að lög um nálgunarbann séu skref í rétta átt að mati Stígamótakvenna þá telja þær gildi þeirra afar takmarkað þar sem þau nái aðeins yfir þá ofbeldismenn sem beiti ofbeldi utan heimilis síns. Líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn konum er oftast framið af sambýlismönnum þeirra sem hingað til hafa verið friðhelgir heima hjá sér. Lausn samfélagsins hefur verið að bjarga konunum og börnunum inn í kvennaathvörfin sem í raun þýðir að friðhelgi heimilisins hefur ekki gilt fyrir sambýlisfólk ofbeldismanna. Slíkt er að mati Stígamótakvenna óviðunandi og því telja þær hugmyndafræðilegt gildi frumvarpsins sem hér er um fjallað afar mikilvægt.

Austurríska frumkvæðið sem frumvarp þetta rekur ættir sínar til, eins og ég gat um áðan, hefur þróast á ákveðinn hátt. Eftir að lögin voru lögleidd í Austurríki varð strax ljóst að ráðgjafarstöðvar um heimilisofbeldi fengu nýjar upplýsingar. Þær fóru að fá upplýsingar frá lögreglunni um brottvikninguna sem lögregla beitti og hafa tekið upp þau vinnubrögð að hafa þá snarlega samband við sambýliskonur ofbeldismannanna og boða þær undantekningarlaust í viðtal við löglærða ráðgjafa. Þeim er boðin fagleg ráðgjöf um þá valmöguleika sem þær eiga kost á. Þær fá upplýsingar um lögfræðilega stöðu sína og um félagsleg úrræði sem eru í boði fyrir þær. Það skal tekið fram að þessar ráðgjafarstöðvar eru reknar af frjálsum félagasamtökum sem vinna í nánu samstarfi við lögregluna. Þar er um að ræða samvinnu milli opinberra aðila og kvennahreyfinganna. En samkvæmt austurrísku leiðinni er inngripið meira en hér er gert ráð fyrir þar sem þessar ráðgjafarstöðvar eru viðbótarúrræði. Nú er það hugmynd hjá Stígamótakonum að Íslendingar ættu að skoða hvort hægt sé að ganga svo langt, það sé í öllu falli umhugsunarefni. Það hefði að vísu kostnað í för með sér að setja upp slíkar ráðgjafarstöðvar, en það gæti orðið árangursríkt.

Í sumar sem leið, að mig minnir, var efnt til ráðstefnu í Háskóla Íslands á vegum UNIFEM um konur og ofbeldi. Einn af gestum þeirrar ráðstefnu var Rosa Logar, einn af hugmyndasmiðum austurrísku leiðarinnar sem getið er um í greinargerð frumvarpsins. Rosa Logar var spurð um hvernig Austurríkismönnum hefði tekist að halda á málum frá því síðast fréttist. Hún nefndi tölur um hvernig málin stæðu hjá Austurríkismönnum núna. Hún lýsti því yfir á ráðstefnunni að á þeim sjö árum sem þá voru liðin frá innleiðingu laganna í Austurríki hefðu 30 þús. úrskurðir fallið á grundvelli laganna, en 30 þús. úrskurðir er talsvert mikið á þeim tíma. Almennt segir Rosa Logar að mikil sátt sé um þessi lög.

Það hefur vakið athygli þeirra sem um þessi mál fjalla í Austurríki, sem var kannað sérstaklega, hve oft einstaklingur þurfti að lúta slíkum úrskurði, þ.e. brottvísun og heimsóknarbanni. Samkvæmt tölum sem Rosa Logar nefndi á ráðstefnu UNIFEM mun það vera í 10% tilvika að ofbeldismaður er gripinn aftur. Austurríkismenn segja að þeir telji þetta fremur lágt hlutfall og benda til að þeir sem einu sinni þurfi að lúta ákvæðum laganna bæti ráð sitt með aðstoð félagsráðgjafa og félagslegra úrræða sem í boði eru í langflestum sveitarfélögum í Austurríki. Menn telja að þetta ákvæði og úrræði hafi gefist afar vel, að komin sé á það löng reynsla og virkilega þess virði að mæla með því.

Rosa Logar sagði okkur á þessari ráðstefnu að ákæruvaldið hefði verið nokkuð lengi að taka við sér, tregt til að byrja að nota úrræðið. En eftir að það var komið í gang og menn sáu að það virkaði þá hefur ekki verið nokkur tregða til staðar hjá ákæruvaldinu. Þeir erfiðleikar sem Rosa Logar segir að Austurríkismenn hafa helst mætt við beitingu þessa úrræðis hafa snúist um umönnun og aðhlynningu þeirra barna sem horft hafa upp á ofbeldið. Því starfi mun hafa verið ábótavant. Það sem Austurríkismenn reyna að betrumbæta núna eru sérstök meðferðarúrræði eða einhvers konar áfallahjálp fyrir börnin. Núna er þeim þætti sinnt á afar athyglisverðan hátt í Austurríki. Þeir eru enn að betrumbæta og fullkomna úrræðið og virkni þess.

Rosa Logar sagði einnig að núna væri nauðsynlegt að skoða sérstaklega stöðu innflytjendakvenna. Það hefur komið í ljós að þær búa við ofbeldi og eiga miklu erfiðara með að sækja sér aðstoð og þá félagslegu þjónustu sem til staðar er í kerfinu en innfæddar austurrískar konur. Það er annar veikleiki sem Austurríkismenn vilja styrkja, þ.e. hvernig úrræðið vinnur með innflytjendakonum. Sérstaklega er rannsakað hvers vegna innflytjendakonur verða frekar fyrir heimilisofbeldi en innfæddar austurrískar konur.

Virðulegi forseti. Við höfum fjallað um heimilisofbeldi oftar en einu sinni á hinu háa Alþingi í vetur. Ég held að þetta frumvarp gæti verið góð viðbót við þau mál sem til staðar eru í nefndum þingsins núna. Í allsherjarnefnd er frumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra um heimilisofbeldi. Ég hef óskað eftir því við hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann allsherjarnefndar, að þetta mál verði skoðað jafnhliða máli hæstv. ráðherra. Ég treysti því að það verði gert í nefndinni. Ég tel að Alþingi Íslendinga eigi að gera allt sem í þess valdi stendur til að vinna gegn því hræðilega böli sem heimilisofbeldi er.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki þörf á að halda mjög langa ræðu um málið þar sem ég hef talað fyrir því oftar en einu sinni áður. Í lokin langar mig samt að fá að vitna í ræðu sem haldin var við táknræna minningarathöfn á Arnarhóli 29. október 2004 í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp afar ámælisverðan dóm í heimilisofbeldismáli. Þar fékk ofbeldismaðurinn afar vægan dóm ef nokkurn. Rök dómsins voru fyrst og fremst þau að eiginkonan, sem varð fyrir ofbeldinu, þ.e. fórnarlambið, hefði reitt mann sinn til reiði. Af því tilefni efndi fjöldi félagasamtaka til táknrænnar minningarathafnar á Arnarhóli þar sem þau jörðuðu misréttið við svartan legstein. Á honum stóð: „Hér hvílir Jóna Jóns. Hún reitti hann til reiði.“

Við tækifærið sagði framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, með leyfi forseta:

„Hingað og ekki lengra, þið berjið ekki fleiri konur.

Við erum hér saman komin til að jarða í eitt skipti fyrir öll það misrétti og ofbeldi sem konur hafa í gegnum tíðina orðið fyrir. Yfirvöldum ber skylda til að tryggja vernd kvenna gegn hvers konar misrétti og ofbeldi. Ef sú vernd er ekki tryggð gerast yfirvöld sek um samþykki.“

Ég held að þessi orð Jóhönnu, hæstv. forseti, eigi heima í þessum sal. Ég held að við í þessum sal þurfum að spyrja okkur hvort við ætlum að gerast sek um samþykki. Ég tel að svo verði ekki. Ég tel Alþingi Íslendinga í stakk búið til að taka þannig á málum að það hafi áhrif og tel að við eigum að láta einskis ófreistað til að leiða í lög ákvæði sem geta afmáð þennan smánarblett af íslensku samfélagi. Ég tel að frumvarpið sem ég hef mælt fyrir sé liður í þeirri viðleitni og vegi þungt í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Ég treysti því, þegar ég mæli fyrir þessu í þriðja sinn, að það fái náð fyrir augum stjórnarliða. Ég held að fólk átti sig á því að það er útlátalítið í sjálfu sér að leiða þetta í lög. Ég treysti því að málið fái farsælan endi í vetur og jákvæða umfjöllun í allsherjarnefnd.