132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög.

53. mál
[17:23]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Síðustu orðin í ræðu háttvirts flutningsmanns, Kolbrúnar Halldórsdóttur, voru: Ég vona að þetta frumvarp fái náð fyrir augum stjórnarliða.

Ég verð að segja að mér finnst með ólíkindum að nú á árinu 2006 skuli menn enn reyna að koma í veg fyrir að menn séu að berja mann og annan og þá sérstaklega að eiginmenn og sambýlismenn berji eiginkonur sínar. Mér finnst með ólíkindum að stjórnarliðar skuli ár eftir ár taka þátt í að svæfa mál sem þetta í nefndum. Það er kannski af því að ég er nýliði að ég skil ekki hvað býr að baki. En einhverra hluta vegna virðast stjórnarliðar reyna að svæfa mál, a.m.k. ef þau koma frá stjórnarandstöðu. Það er í raun okkur öllum til skammar.

Varðandi frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum sem dómsmálaráðherra leggur fram þá gengur það að sjálfsögðu alls ekki nógu langt varðandi heimilisofbeldi. Það lýsir helst þeirri íhaldssemi sem virðist ríkja hjá dómsmálaráðherra varðandi breytingar á lögum ef um er að ræða ofbeldi á konum.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir er flutt af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, Jóni Bjarnasyni, Steingrími J. Sigfússyni, Hlyni Hallssyni og Ögmundi Jónassyni. Það er löngu tímabært og ég er þeirrar skoðunar að þau eigi heiður skilinn fyrir að bera það upp. Það hefur verið farið vel yfir það í ræðu flutningsmanns. Oft vill þannig til með stjórnarliða, sem ég að vísu verð að viðurkenna að ég sakna núna að séu ekki í salnum núna. Það ýtir undir það sem ég hef verið að segja, þ.e. að þeir virðist engan áhuga hafa á þessum málum. Svo virðist því miður sem stjórnarliðum, herra forseti, sé algjörlega sama um ofbeldi á heimilum, ofbeldi sem konur eru fyrst og fremst beittar. Það kemur fram hér í greinargerð að í 90% tilfella sé um að ræða sambýlismann eða eiginmann, núverandi eða fyrrverandi. Menn vita hvert vandamálið er og þess vegna er frumvarp þetta bráðnauðsynlegt til að taka á því.

Mig langar aðeins að bera örstutt niður í frásögn konu sem lifði við mikið heimilisofbeldi, andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, barsmíðar o.s.frv. Það er frásögn Thelmu Ásdísardóttur. Það er alveg öruggt að stjórnarliðar velta fyrir sér hvort þetta vandamál sé til í raun og veru. Væntanlega hafa þeir ekki sjálfir orðið varir við það. Það er með ólíkindum að þrátt fyrir að umræðan sé komin af stað í fjölmiðlum, í lesefni og hjá Stígamótum, þá virðist margur, ég nefni enn og aftur stjórnarliða, ekki trúa því að þetta tíðkist á heimilum á Íslandi, að konur séu beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Hvers vegna fer það ekki hátt? Jú, það er m.a. af því að þessar konur eru gjörsamlega niðurbrotnar og geta hreinlega ekki komið þessu frá sér fyrr en langt er um liðið. Þær ná hreinlega ekki að standa uppi í hárinu á mönnunum meðan þetta stendur yfir. En mig langar, með leyfi forseta, að lesa lítinn kafla þar sem Thelma tekur á sig rögg og vill hafa samband við Stígamót til að fá aðstoð, áratugum eftir að hún lenti í þessu mikla heimilisofbeldi.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ég hringdi í Stígamót til þess að panta viðtal komst ég í svo mikið uppnám um leið og svarað var á hinum enda línunnar að ég brast í grát og skellti á. Þessi viðkvæmni kom mér algjörlega í opna skjöldu. Það liðu nokkrir dagar áður en mér tókst að safna nægum kjarki til að hringja aftur en til allrar hamingju gerði ég það.“

Þetta er, herra forseti, frásögn konu af því er hún reif sig loksins upp í að leita sér aðstoðar til að átta sig á því að heimilisofbeldi er ekki henni að kenna. Í þessu tilfelli var það faðir sem beitti bæði börn og eiginkonu ofbeldi en þetta er ein af þeim frásögnum sem ætti að vera skyldulesning hjá öllum í þessum sal til að við áttum okkur á því að heimilisofbeldi er til staðar, bæði barsmíðar og kynferðisleg misnotkun. Talandi um kynferðislega misnotkun þá skilst mér á flutningsmanni að hún hafi borið þetta fram tvisvar áður og þetta hafi verið svæft. Það sama gerðist í fyrra þegar þingmenn úr Samfylkingunni lögðu fram frumvarp um fyrningarákvæði vegna kynferðislegs ofbeldis, þ.e. um að fella fyrningarákvæðin niður. Það var svæft og því miður var eina skýringum sem maður fékk sú að málið hafi komið frá vitlausum aðilum, þ.e. hugmyndin kom ekki frá stjórnarliðum.

Þetta er sorgleg íhaldssemi eða afturhaldssemi. Ég veit ekki hvort það er. En hvernig stendur á því að á 21. öldinni, árið 2006, er enn reynt að byrgja brunninn, minnka líkur á því að heimilisofbeldi sé til staðar. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Ég tel að með því að samþykkja þetta frumvarp megi ná góðum árangri í að aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi. Það þarf að vera skýrt að ef þær leiti sér aðstoðar muni þær fá hana og njóta verndar, eins og hér kemur fram varðandi það sem mætti kalla nálgunarbann.

Ég ætla að lokum að grípa niður í síðustu orðin í greinargerðinni. Þar segir:

„Af þeim upplýsingum sem lesa má í ársskýrslu Kvennaathvarfsins sést glöggt hversu alvarlegt ástandið er hér á landi og er skýrslan öll sterk hvatning til stjórnvalda um að halda stöðugt úti markvissu starfi gegn heimilisofbeldi.“

Að lokum, herra forseti, vonast ég til að þingið sjái ástæðu til að afgreiða þetta mál og að það verði ekki svæft í nefnd.