132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

56. mál
[18:02]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar. Það er afar ánægjulegt að þetta mál sé á dagskrá og ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni, Kolbrúnu Halldórsdóttur, að vonandi er jarðvegur núna fyrir því að málið fari hratt í gegn. Enda ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nú verði skipuð nefnd til að undirbúa áætlun um lagabreytingar sem gerir ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór einmitt vel yfir það áðan að búið er að fá umsagnir frá félagasamtökum og aðilum sem tengjast þessu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Landvernd, Umferðarráði, Landsbjörgu og Umferðarstofu og fleirum. Umsagnirnar voru afar jákvæðar og lýstu yfir öflugum stuðningi við efni tillögunnar. Auk þess hefur verið tekið tillit til fróðlegra upplýsinga sem komu frá t.d. Landssamtökum hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbnum.

Mikil vakning hefur verið hér á landi á síðustu árum í hjólreiðum. Hjólreiðafólki og hjólum hefur fjölgað mjög mikið. Það er ánægjulegt. Hluti af hjólreiðafólki lítur fyrst og fremst á þetta sem útivistartæki, fyrir líkamsrækt og íþróttir. En sá hópur sem lítur á þetta sem samgöngutæki er alltaf að stækka. Ef stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar kæmist á má leiða líkur að því að þeir sem munu nota reiðhjólið sem alvörusamgöngutæki muni fjölga mjög.

Við höfum dæmi um það frá löndum eins og Hollandi og Danmörku þar sem sýn okkar af landinu er þannig að mjög margir nota reiðhjólið sem góðan flutningsmáta. Ég þekki það frá Þýskalandi, þar sem ég var búsettur í átta ár, að fjölmargir þar nota reiðhjól og það fer ekki endilega eftir veðurfari eða landslagi. Margir halda að reiðhjól geti aldrei orðið alvörusamgöngumáti vegna þess að hér sé vindasamt og rigning eða brekkur miklar. Í rauninni eru það engar hömlur gagnvart reiðhjólum í dag og gildir að búa sig vel og almennilega. Reyndar er það svo að í mörgum borgum er kostur að hafa reiðhjólið. Maður kemst hraðar á milli staða á reiðhjólinu en með bíl, t.d. á háannatímum, vegna þess að leiðirnar eru oft styttri. Miklu einfaldara er að gera reiðhjólastíga í undirgöngum en meðfram heilu götunum og mörg dæmi eru um að hægt sé að fara styttri og einfaldari leiðir á reiðhjólunum. Þetta er einnig ódýrara í sambandi við uppbyggingu vegakerfisins.

Talað hefur verið um að flutningur um göturnar sé að aukast, en umrætt stofnbrautakerfi gæti verið liður í að draga úr notkun einkabílanna. Ég sé það fyrir mér að fólki gæti fjölgað mjög sem fer að hjóla til vinnu. Við sjáum bara hvað hefur gerst hérna sem betur fer á síðustu árum innan höfuðborgarsvæðisins. En betur má ef duga skal. Það er vissulega kominn vísir að hjólreiðaleiðum sem stytta leiðir og gera hlutina einfaldari. En það vantar heildstæða sýn í þessum málum. Það vantar að sveitarfélögin vinni saman og ríkið komi með það á dagskrá að Vegagerðin taki mið af hjólreiðamönnum nákvæmlega eins og allt er nú miðað við bíla.

Ég held að þetta sé þróun sem við getum ýtt á eftir og tekið þátt í að skapa. Að hjólreiðar verði viðurkenndur og fullgildur kostur í samgöngumálum og, eins og segir í greinargerð, að fyrst þá verður stefnan á sjálfbærar samgöngur trúverðug.