132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:23]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Tillaga okkar til þingsályktunar sem hér er til umræðu, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, Jóhanns Ársælssonar og mín, er til þess ætluð að iðnaðarráðherra semji sérstaka áætlun um hvernig megi ljúka verkefni sem nú er í gangi og heitir Djúpborun á Íslandi á 5–10 árum, að því ljúki árið 2011–2016 í staðinn fyrir þau verklok sem nú eru áætluð, vegna fjármagns og annars, eftir 15 ár og er þar þá nefnd tala sem ekki er örugg. Í þessari áætlun viljum við að gerð verði grein fyrir fjármagni sem til þessa þyrfti og hversu mikið fé er líklegt að leggja þyrfti til þessa í fjárlögum. Við viljum að áætlunin sé samin í samráði við forsvarsmenn verkefnisins en líka óháða sérfræðinga svo allrar varúðar sé gætt. Og hér í tillögunni, sem lögð var fram fyrstu dagana í október, er gert ráð fyrir að ráðherrann kynni þessa áætlun fyrir Alþingi í formi skýrslu eða frumvarps á vorþinginu 2006. Það vorþing stendur reyndar yfir nú. En með hröðum höndum mætti gera þetta enn þá. Ég sé enga ástæðu til að breyta því hér við fyrri umræðu að minnsta kosti að það verði gert núna á þessu þingi.

Það er svo — og hefur kannski ekki vakið nægilega athygli á okkar miklu umræðutímum orku, umhverfisverndar, virkjana, stóriðju og fleira því viðkomandi — að tækniframfarir gætu verið að skapa nýja vídd í orkumálum hér á Íslandi. Ef vonir manna um þessa djúpborun, eins og kölluð er, ganga eftir, mætti vinna um þrisvar til fimm sinnum meiri orku úr háhitasvæðum okkar en menn hafa hingað til talið gerlegt. Þetta eru auðvitað straumhvörf og gæti, ef rétt er á haldið, fært okkur nær viðunandi málamiðlun milli orkunýtingarsjónarmiða og náttúruverndarsjónarmiða en útlit hefur verið fyrir um hríð. Ef þetta gengi eftir yrðu jarðvarmavirkjanirnar mun vistvænni en nú er miðað við orkuöflunargetu þar sem miklu meiri orka fengist úr hverri borholu en núna. Jarðvarmavirkjanirnar yrðu mun hagkvæmari kostur til orkuframleiðslu á Íslandi en nú er, miðað við vatnsaflsvirkjanir, og sennilegt að menn mundu miklu fremur horfa til þeirra en til vatnsaflsvirkjana af þeirri gerð sem við erum vönust nú á síðari tímum vegna þess að umhverfisraskið yrði miklum mun minna.

Þessu rannsóknarverkefni, Djúpborun á Íslandi, var hrundið úr vör árið 2000, fyrir fimm árum og þrjú helstu orkufyrirtæki landsins standa að því, þ.e. Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur í samráði við Orkustofnun og sérfræðinga hennar, þar af er einn af þáverandi sérfræðingum hennar, Guðmundur Ómar Friðleifsson jarðfræðingur, sem getur talist vera fremstur meðal jafningja af frumkvæðismönnum að þessu verkefni.

Verkefnið er nú komið á fullt skrið og fyrsta tilraunaholan er í gangi á Reykjanesi, hola nr. 17, sem svo heitir. Þegar ég hringdi í dag í Guðmund Ómar Friðleifsson til að spyrja frétta þá sat hann í bornum yfir holu 17 og sagði þær ágætu fréttir að Hitaveita Suðurnesja væri nú að dýpka holuna og að hreinsa úr henni svarf eftir blástur sem kom úr holunni í nóvember. Hún er orðin rúmlega þriggja kílómetra djúp og stendur til að dýpka hana enn þá meira ef hún verður notuð sem fyrsta tilraunaholan. En það er ekki komið á hreint því það þarf að gera frekari mælingar. Og mælingar í þessu verkefni eru í rauninni allar tilraunir í sjálfu sér því þær aðstæður sem þarna eru fyrir hendi hafa ekki komið upp á öðrum stöðum í heiminum.

Verkefnið sjálft felst í því að skera úr um hvort hægt sé að bora miklu dýpri holur eftir jarðhitavatni en nú er. Nú eru venjulegar háhitaholur um tveggja kílómetra djúpar, með tilbrigðum, en hér er um að ræða fjögurra til fimm kílómetra djúpar holur og vatnið sem á að ná er mjög sérstætt jarðhitavatn. Ef kalla má það vatn yfirhöfuð, því það er vatn í svokölluðu yfirmarksástandi eða í hætnu ástandi, sem einnig er kallað krítískt ástand, í rótum háhitasvæðanna, 400–600 gráða heitt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir efnafræðilegum fyrirlestri. Ég kem kannski í lokin að efnafræðinni í þessu sem væri fróðlegt fyrir hv. þingmann að vita meira um. En vatnið sem má ná í þessu yfirmarksástandi er þannig að það verður að taka það upp sem slíkt og þess vegna þurfa þetta að vera sérstakar holur aðeins til þessara nota því það má ekki blandast vatninu sem ofar er, hinu venjulega jarðhitavatni sem er í forminu gufa og vatn, skiptir sér í þau form. En hér er um að ræða hætið ástand vatns, svokallað krítískt ástand, þannig að ég endurtaki það fyrir þingmanninn og má einna helst lýsa því þannig að það sé í eins konar gasfasa sem líffræðingar og raunvísindamenn hér í salnum væntanlega skilja.

Þess vegna þarf að stálfóðra holurnar niður á þetta æskilega dýpi og hafa meira við þær en venjulegar holur. Djúphola af þessu tagi er talin geta gefið allt að tífalt afl venjulegrar holu, líklega allt að 50 megavöttum í stað þess að venjuleg hola nú gefur fjögur til fimm megavött. Eins og áður segir kynni að vera unnt að vinna þrisvar til fimm sinnum meiri orku en núna úr hverju háhitasvæði sem tekið er til virkjunar. Það er alveg gríðarlega mikilvægt. Nefna má það dæmi að Hellisheiðin öll mun nokkurn veginn jafngilda sjálfri Kárahnjúkavirkjun sem við höfum rifist hvað mest um hér að undanförnu. Ef háhitasvæði af þessu tagi gæti verið þrjár eða fimm Kárahnjúkavirkjanir er hætt við því að afkomendur okkar og kannski bara hinar yngri kynslóðir sem nú lifa eigi eftir að klóra sér í kollinum og velta því fyrir sér af hverju farið var út í jafnumdeilda framkvæmd og Kárahnjúkavirkjun var og er á þröskuldi þessarar nýju tæknibyltingar.

Forathugun þessa verkefnis stóð árin 2001–2003 og lauk með ítarlegri skýrslu. Áformað er að bora alls þrjár tilraunaholur og hin fyrsta þeirra, RN-17, er núna í góðum gangi. Þess er vænst að hinar holurnar tvær verði á Hengilssvæðinu og við Kröflu. Önnur yrði framlag Orkuveitunnar og hin framlag Landsvirkjunar ef allt fer sem horfir. Talað er um að það kunni að líða 15 ár þangað til hægt er að skera úr um það hvort þetta verkefni gengur upp eða ekki. Hins vegar gæti það þess vegna orðið strax við fyrstu borun í holunni RN-17 vegna þess að verkefnið á þessu stigi gengur út á að athuga hvort þetta sé hægt og hvað þurfi til. Því er ekki víst að svo langur tími líði. En með meira fjármagni væri hægt að hraða boruninni, þ.e. ekki kannski hverri holu um sig, en það væri hægt að bora þær jafnvel á sama tíma eða hverja á eftir annarri þannig að við gætum fengið úr þessu skorið á styttri tíma. Ég er svo bjartsýnn að segja fimm ár. Þau kunna auðvitað að verða fleiri. En þau gætu líka orðið færri. Þetta er það mikilvægt og brýnt mál, ekki bara fyrir orkuiðnaðinn heldur fyrir íslenskan samtíma í heild sinni, að okkur ber að veita því fé til þessa verkefnis sem við getum. Þá verður líka að taka fram að verkefninu berst fé hvaðanæva erlendis frá. Hins vegar er það ekki ótæmandi og ríkið gæti komið hér myndarlega að.

Það verður reyndar að segja hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. ríkisstjórn til hróss að í haust var í fyrsta sinn veitt fé til þessa verkefnis eða lagt fyrir Alþingi að fé til þessa verkefnis verði á fjárlögum, sem varð, en auðvitað ekki í þeim mæli að það breytti verulega um heldur var þar verið að bæta fjárskort sem spratt af tilteknum gangi mála. Þetta kom í staðinn fyrir erlent fé.

Með meira fjármagni kann að vera hægt að flýta verulega fyrir þessu verkefni í félagi við orkufyrirtækin íslensku og erlenda rannsóknarsjóði. Heildarkostnaður við verkefnið er talinn munu verða 5–6 milljarðar kr. Það er há upphæð. En við höfum hins vegar verið að tala um slíka milljarða hér fram og aftur í orku- og virkjanamálum, hvað þá ef tekinn er mælikvarði allra fjárlaganna. Þegar til lengdar lætur er hér því í raun ekki um að ræða mikið fé enda er ekki ætlast til þess að íslenska ríkið leggi það allt fram.

Ég læt þá lokið framsögu fyrir þessu verkefni. Ég vona að það mæti skilningi bæði við 1. umr. og í þeirri nefnd sem ég legg til að um það fjalli, nefnilega í hinni háu iðnaðarnefnd.