132. löggjafarþing — 65. fundur,  13. feb. 2006.

Djúpborun á Íslandi.

61. mál
[18:58]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka þessar umræður og hef nú ekki miklu við vísdómsorð síðasta hv. ræðumanns að bæta. Mér fannst hann draga þetta mjög vel saman og lýsa þessu af mikilli tilfinningu. Það er auðvitað þannig að tala ber varlega um tilraunaverkefni. Það gera vissulega aðstandendur þessa verkefnis, bæði þeir vísindamenn sem hér eiga mestan hlut að máli og líka þau fyrirtæki sem hafa lagt fé til. En það er líka ábyrgðarhluti að draga úr vonum og gera ráð fyrir minni niðurstöðum en vænta má á raunhæfan hátt. Ég tel að hér liggi í raun og veru mikið við að fá úr því skorið hvort þetta er kleift eða ekki. Af samræðum mínum við þá menn sem þarna standa fremstir og hlustun eftir gagnrýnisröddum þá er það niðurstaða mín, auðvitað fullkomlega ófræðileg, en niðurstaða mín sem stjórnmálamanns að í raun og veru sé enginn verulegur efi á því að þetta sé unnt. Þetta er hins vegar brautryðjandaverk og það kemur fram í erfiðleikum sem menn bjuggust við við vinnslu verksins, t.d. að til að mæla þennan mikla hita þarf auðvitað sérstaka gerð af mælum sem ekki eru endilega til í heiminum, og jafnframt því sem farið er í verkið þarf að þróa til þess tækin sem til þess eru notuð. Við sömu flutningsmenn og flytjum þetta frumvarp flytjum líka annað frumvarp sem lagt var fram á svipuðum tíma og grípur miklu meira á því umfjöllunarefni sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á, þ.e. um orkuvinnslu hér á landi í framtíðinni, til hvers eigi að nýta orkuna og hver eigi að vera okkar framtíðarpólitík um orkumálin.

Þar er líka minnst á djúpborun á Íslandi og ég hef reyndar í ræðu um frumvarp um auðlindir í jörðu fjallað nokkuð um þessi mál bæði í sameiningu. En okkur þótti rétt að flytja þetta mál sér í lagi og blanda því ekki inn í okkar sérstöku pólitík í þessum málum vegna þess að hér er fyrst og fremst um tæknilegt verkefni að ræða og það er öllum í hag, bæði þeim sem leggja áherslu á sem mesta orkuvinnslu og sem flestar virkjanir og álver í framtíðinni og þeim sem kannski telja sig þurfa að líta á þetta fremur frá sjónarhóli umhverfisstefnu og íslenskrar náttúru, að komast að því hvort þetta er hægt eða ekki. Ef í ljós kemur að djúpborun er tæknilega möguleg og gengur vel hér á landi þá gjörbreytast orkuöflunarmöguleikar okkar með þeim hætti að ýmis þau verkefni sem menn eru nú að spekúlera í og áforma borga sig í raun og veru ekki þegar þessi möguleiki liggur fyrir. Ég held að menn þurfi að leggjast á þessa sveif, að finna þetta hreinlega út til að geta síðan tekið framtíðarákvarðanir.

Það er svo alveg rétt að menn horfa nú töluvert til jarðvarma í stað vatnsafls, eða a.m.k. þannig að hlutfall orku frá jarðvarma geti orðið miklu meira en nú er af heildarorku í landinu. Þrátt fyrir það geta jarðvarmavirkjanir haft töluverð umhverfisáhrif að einu leyti umfram vatnsaflsvirkjanirnar en það er að upphafsrannsóknir og frumrannsóknir á jarðvarmavirkjunum geta spillt umhverfi meira en um er að ræða í vatnsaflsvirkjunum þar sem mælingar manna eru ekki mjög skaðvænlegar fyrir umhverfið. Það er, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir minntist á, m.a. vegna vegaframkvæmda sem þarf að leggja í og vegna borteiga sem þarf að slétta. Oft eru þessir staðir eðli málsins samkvæmt í hrauni eða á sérstökum stöðum hvað náttúru snertir. Það er auðvitað sorglegt þegar menn fara í slíkar rannsóknir að komast að því að svæðið sé ekki virkjanlegt eða ekki með núverandi tækni og skilja síðan eftir þá eyðileggingu sem þetta hefur valdið. En eins og hér var rakið áðan standa vonir til að djúpborunin valdi minni umhverfisáhrifum að þessu leyti en hefðbundin jarðvarmavinnsla einfaldlega vegna þess að holurnar þurfa ekki að vera eins margar, þær sem í vinnslu eru, og tæknin er komin á það stig núna að menn geta nokkurn veginn séð það út hvar muni vænlegast að bora rannsóknarholurnar.

Ég vil svo að endingu ítreka þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í umræðunni og þeirra sem hafa hlustað hér. Ég held að við séum á tímamótum í þessu máli og ef þetta verkefni gengur vel þá opnist margar dyr sem nú eru okkur lokaðar með þeim afleiðingum, hugsanlega, að þeirri miklu styrjöld sem hér hefur staðið í raun og veru í þrjá áratugi, á milli náttúruverndarmanna annars vegar og framkvæmdarmanna hins vegar, geti farið að linna og hægt verði að taka skynsamlegar ákvarðanir, með rammaáætlun og alla tæknilega möguleika í augsýn, fyrir framtíðina í þessum efnum. Ég er út af fyrir sig sammála því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að við verðum að staldra við í orkumálum okkar og umhverfismálum. Það er hins vegar að sjálfsögðu freistandi, og kannski meira en freistandi, jafnvel skylda okkar, að nýta þá orku sem við getum fengið hér á Íslandi og ekki gengur á landgæði eða þá náttúru sem er hin eiginlega olíuauðlind Íslendinga. Ef djúpborunarverkefnið getur orðið til þess að við náum slíkri sátt og við náum þeirri stöðu þá er það eitthvað það merkilegasta sem gerst hefur í þessum efnum í áratugi.