132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Höfundalög.

222. mál
[13:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Örfá orð um mikilvægt mál. Ég þakka síðasta hv. ræðumanni fyrir kveðjur hans til nefndarinnar, a.m.k. til mín, og ég held að ég geti talað fyrir munn annarra nefndarmanna í því og þakka honum á móti fyrir góða verkstjórn í málinu. Þetta eru erfið mál og flókin og ekki árennilegir þeir textar sem við höfum fengið til umfjöllunar.

Það hefur skipt miklu máli í starfinu að frumvarpið hefur tekið breytingum frá í fyrra þannig að tekið var tillit til athugasemda sem komu frá netverjum og umræðu sem varð innan og utan nefndarinnar um sjónarmið þeirra í málinu og þar með neytenda og almennings að nokkru leyti. Það var líka mikilvægt í umfjöllun málsins að strax skapaðist samstaða um að ganga til móts við sjónarmið blindra og annarra svipaðra hópa gagnvart þeim breytingum sem hér var verið að fást við. Enn fremur er á það að benda að nefndin varð sammála um að vísa því til menntamálaráðherra og til höfundaréttarnefndar að undirbúa breytingar á lögunum í samræmi við eða með tilliti til þeirra umsagna og athugasemda sem bárust frá bókavörðum og félagi þeirra, Upplýsingu.

Síðast en ekki síst má nefna að nefndin varð sammála um það sem ég tel að sé mikilvægt, að skora á ráðherra að framfylgja lögunum að því er lýtur að höfundaréttarnefnd en sú samstaða í nefndinni skapaðist vegna umræðu um það fyrirkomulag sem hér hefur verið tíðkað hingað til, að í höfundaréttarnefndinni sjálfri sem annast sífellda endurskoðun þessara laga eru einungis fulltrúar rétthafa og í rauninni engir fulltrúar neytenda. En málin eru það flókin og erfið að það hamlar þeirri umræðu sem eðlileg væri meðal almennings og meðal þeirra sem í raun og veru sitja hinum megin við borðið í þessu.

Það er svo og út af fyrir sig getum við fagnað því að hingað til hefur ríkisvaldið og hinir kjörnu fulltrúar staðið með höfundum og með hagsmunum þeirra í þessum höfundaréttarmálum, hygg ég. Hins vegar eru auðvitað hagsmunir hinum megin líka. Neytendur hafa sína hagsmuni og það höfum við séð á undanförnum árum einkum í sambandi við tölvur og net, að þeir eru svo sannarlega til. Þeir sem þeirra hagsmuna gæta rísa upp þegar þeim þykir of langt gengið sem m.a. var um árið þegar diskar voru allir settir undir höfundarétt, mál sem ekki er búið að leysa þótt á þeim sumum eða mörgum sé í rauninni ekkert höfundarefni. Að sinni urðum við sammála um að leggja áherslu á þessi sjónarmið með því að óska eftir því við núverandi hæstv. ráðherra að framfylgja þessum lögum sem hinir hafa ekki gert með því að koma höfundaréttarnefnd á fót og í henni verða þá einhvers konar fulltrúar neytenda. Ráðherra hefur að vísu frjálsar hendur til að ákveða hverjir þeir séu. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að byrjað sé á Neytendasamtökunum og síðan sé haft samband við samtök netverja sem til eru um aðild að þessu ráði.

Að lokum þetta. Við sem sátum í nefndinni og skrifuðum undir álitið, og væntanlega hinir líka sem gátu ekki verið á síðasta fundi, leggjum áherslu á að þessari heildarendurskoðun verði flýtt og henni verði haldið duglega áfram. Ljóst er að höfundaréttarmálunum er ekki að linna á þessum vettvangi eða öðrum. Sennilega verða þetta meiri og meiri átakalínur, bæði milli þeirra sem hagsmuni hafa innan þjóða og milli þjóða og menningarheilda á næstu áratugum og jafnvel alla öldina samanber fréttir frá alþjóðasamtökum og samvinnustöðvum um það, t.d. Alþjóðaviðskiptastofnuninni og öðrum slíkum. Hér er aðeins verið að stíga eitt lítið skref en það hefur tekist gæfulega og því ber að fagna.