132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:40]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem liggur að baki þessu verki er 128 blaðsíður. Þar er tekið á öllum þáttum varðandi löggæslu í landinu og m.a. farið yfir mannaflaþörf til að átta sig á því hvernig best sé að þessu verki staðið. Á grundvelli þess eru þessar tillögur gerðar. Það er ekki verið að gera þessar tillögur til að veikja löggæsluna, heldur styrkja hana og efla. Þá mun fjöldi lögreglumanna að sjálfsögðu taka mið af því sem þörf er fyrir. Ég veit ekki hvort verkefnisstjórnin lagði á sig að lesa þessa þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður vitnar til. Ef svo hefur ekki verið gert er ekki annað hægt en að afsaka það, ef þar hefur komið fram eitthvert grundvallarsjónarmið sem verður að taka tillit til ef menn ætla að huga að góðri löggæslu í landinu.

Ég tel að með þessu frumvarpi og þeirri vinnu sem liggur þar að baki sé tekið tillit til allra sjónarmiða sem þarf að hafa í huga þegar þessi mál eru skoðuð.