132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:45]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kemur í frumvarpinu er verið að tala um greiningardeild sem á að safna gögnum og leggja mat á þróun til að hafa það markmið sem hv. þingmaður nefndi, að koma í veg fyrir að afbrot verði framið. Á þetta er lögð rík áhersla af öllum þjóðum og öllum ríkjum núna. Varðandi heimildir þessarar deildar er ekki tekið á því í þessu frumvarpi, það er sérstakt álitaefni sem þarf að fjalla um á Alþingi og ég gat þess sérstaklega að við hefðum í þessu efni t.d. tekið mið af umræðum um þessi mál á vettvangi Evrópuráðsins. Það liggja fyrir ítarlegar rannsóknir á vettvangi Evrópuráðsins um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu og þegar við fjöllum um efnisþætti þessa máls hér á þingi og annars staðar munum við að sjálfsögðu taka mið af því sem er skynsamlegast talið til að sameina það að gæta öryggis borgaranna, bæði eins og lögregla getur gert það og líka eins og við viljum að þess sé gætt með mannréttindi að leiðarljósi.