132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[14:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að skjóta sér á bak við Evrópuráðið. Ég gjörþekki þá skýrslu sem hæstv. ráðherra vísar til.

Ég gjörþekki líka þá samþykkt Evrópuráðsins þar sem skýrt er tekið fram að það verði að hafa lýðræðislegt eftirlit með einmitt deildum af þessu tagi. Það er hvergi að finna hér. Ég óttaðist að til stæði að taka síðar upp annars konar lögheimildir til deildar af þessu tagi. Það kom fram í máli ráðherrans og stendur reyndar líka í frumvarpinu að það standi til síðar að láta samþykkja á Alþingi sambærilegar lögheimildir og þær deildir hafa sem við köllum leyniþjónustu í öðrum löndum. Hvaða heimildir hafa þær? Jú, þær mega njósna um fólk, hlera o.s.frv. Við höfum aldrei á Íslandi leitt neinar almennar heimildir í lög til þessa og ég verð því miður að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég treysti mér ekki til að láta ríkislögreglustjóra hafa vald til að ákveða eftirlit með hinum og þessum einstaklingum í þessu samfélagi eða (Forseti hringir.) tilteknum hópum.