132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:45]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst ánægju yfir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson veitir mér hér málfrelsi. Að sama skapi hef ég aldrei gert neina tilraun og mun aldrei gera til að takmarka málfrelsi hv. þingmanns. En þegar reynt er að afflytja efni frumvarps, eins og mér finnst ákveðnir hv. þingmenn hafa gert hér í dag með því að fjalla um það sem ekki er einu sinni fjallað um í frumvarpinu, þá er mér það algjörlega frjálst að vekja athygli á því.

Það er alveg ljóst að umrædd rannsóknar- og greiningardeild ríkislögreglustjóra hlýtur að vera samstarfsaðili við aðrar sambærilegar deildir á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Vegna eðlis þeirra brota sem ég fjallaði um í ræðu minni og deildinni er ætlað að rannsaka hlýtur samstarf yfir landamæri að vera í brennidepli. Hvað rannsóknarheimildirnar varðar heyrði ég það ekki á ræðu hæstv. ráðherra að hann væri að boða einhverjar frekari rannsóknarheimildir. Ég geri fyllilega ráð fyrir og þykist vita að þessi deild fer nákvæmlega með þær rannsóknarheimildir sem löggjafinn hefur veitt henni til þessa, og þær eru margar þær sömu, af því að við leggjum stundum upp úr norrænu lagasamræmi, og lögreglan í nágrannalöndum okkar hefur. Þetta er spurningin um hver beitir þeim. Áhættumatið bætist við það sem við höfum búið við og ég studdi mjög í ræðu minni áðan að lögreglunni væri falið að gera það vegna eðlis þessara afbrota sem ekki eru kærð. Lögreglan þarf að leita þau uppi svipað og fíkniefnabrotin. Við hljótum að standa vörð um það að efla lögregluna af því að öll viljum við vinna bug á og vinna gegn þeim afbrotum.