132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[15:53]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að eftir að búið er að vísa þessu máli til hv. allsherjarnefndar eigi nefndarmenn kost á því að fara í saumana á því, spyrja fulltrúa ríkislögreglustjóra um hvernig þeir hyggist vinna þetta, starfa innan þess hlutverks sem við felum þeim með frumvarpinu. Ég vænti þess að við spyrjum þá líka hvernig samstarfi þeirra sé háttað t.d. við lögregluyfirvöld á hinum Norðurlöndunum og hvort sú starfsemi sem þeir sjá fyrir sér innan þess ramma sem er áhættumatið verði að einhverju leyti öðruvísi, en ég geri ráð fyrir að málið skýrist heilmikið þar. Við fáum sérfræðinga á þessu sviði til fundar við nefndina. En það er ekkert af þessu auðvelt, herra forseti. Það er ekkert af þessu auðvelt og þess vegna lagði ég í ræðu minni megináhersluna á hinn gullna meðalveg — hvernig við þurfum að feta hann, gullna meðalveginn, á milli þess að útvega lögreglunni þau tæki og þær heimildir sem hún þarf til að tryggja öryggi borgaranna, verja okkur gegn hryðjuverkum og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi og svo hins vegar persónufrelsið og lýðréttindin. Þetta er erfitt og við þurfum alltaf að halda vöku okkar.

Ég vil aðeins í einu taka undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan, herra forseti. Það eru þessar markalínur. Ég hlustaði á fulltrúa Evrópuþingsins á þessari sömu málstofu fjalla um erfiðleikana við að skilgreina hryðjuverkamanninn. Við þekkjum hann öll þegar hann er búinn að sprengja eitthvað í loft upp. Við þekkjum hann flest þá en hvernig eigum við að skilgreina hann í orðum vegna þessarar markalínu, eins og einhver sagði einhvern tíma: Hryðjuverkamaður í hugum eins er frelsishetja í hugum annars. Svona flókið er þetta.

Ég er ekki að gera lítið úr persónuréttindunum. En ég vil halda því á lofti að meginefni þessa frumvarps er að standa vörð um öryggi borgaranna og um þjónustu lögreglunnar og stjórnvalda gagnvart borgurunum, tryggja öryggi þeirra.