132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[16:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að leggja hér nokkur orð í 1. umr. um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þetta mál fer nú til nefndar og ég geri ráð fyrir að þar verði ítarlega farið í gegnum þau atriði sem hér er verið að leggja til, bæði breytingar og aðrar nýjar áherslur. Þá komi þar inn umsagnir og álit þeirra aðila sem þessar breytingar snerta. Ég vil sérstaklega víkja að þeim breytingum sem er verið að leggja til á stöðu og verkefnum sýslumannsembættanna, lögreglunnar og lögreglustjórnarinnar, sérstaklega út um land.

Nú er það svo að sýslumennirnir eru umboðsmenn ríkisvaldsins í héraði og eru þar í rauninni nánasti tengiliður milli íbúanna og ríkisvaldsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið sé varlega í breytingar á stöðu og verkefnum sýslumannsembættanna og varast að þjónustan færist fjær íbúunum eða að þessi tengsl verði lengri og óhentugri. Hér er ekki gert ráð fyrir að fækka sýslumönnum sem ég tel að sé vel. Landsbyggðin á orðið á öllu von af hálfu ríkisvaldsins í niðurskurði opinberra starfa og þjónustu. En hér er ekki svo og ég vil í upphafi máls míns láta í ljósi ánægju með þær áherslur, þótt seint komi fram á ferli þessarar ríkisstjórnar, að færa verkefni út til sýslumannsembættanna og ný þjónustuverkefni sem mörg hver eru unnin á landsvísu en markmiðið er að vista þau hjá sýslumannsembættunum. Þó að seint sé — þó vonandi sé nú komið að lokum setu þessarar ríkisstjórnar — þá er þó gott til þess að vita að hún sé að huga að þessu svona í restina, frú forseti. En að sjálfsögðu hefði hún mátt huga að þessu fyrr og vonandi mun hæstv. ráðherra, og ég hef enga ástæðu til annars en að treysta því, ráðast í það af fullum krafti og heilindum að færa verkefni til sýslumannsembættanna og styrkja stöðu þeirra sem starfsstöðva. Og gott um það.

Hitt er svo annað mál með forsjá lögreglumanna og lögreglunnar í héraði. Það hefur verið órjúfanlegur hlutur af starfi sýslumannanna að fara jafnframt með lögregluvald í sínu umdæmi. Þá hefur sýslumaðurinn getað beitt lögreglunni eða ráðstafað kröftum hennar í almannaþágu eftir því sem kröfur hafa verið uppi um og kallað til hverju sinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því sjónarmiði til haga að hlutverk lögreglunnar er ekki fyrst og fremst að elta uppi og reyna að finna glæpamenn á einhverjum sviðum þótt það reynist óhjákvæmilega stundum vera verkefni þeirra. En hlutverk lögreglunnar er að mínu viti fyrst og fremst þjónusta, margháttuð opinber öryggisþjónusta við íbúana á viðkomandi svæði. Þess vegna er nánd við lögregluna hvað það varðar mjög mikilvæg. Út um dreifbýlið er víða verið að skera niður margháttaða opinbera þjónustu. Ekki síst hvað varðar almannaöryggi. Við vitum að lögreglan er oft fyrst á vettvang þegar eitthvað ber upp á, hvort sem það er í umferð eða að aðstoða í erfiðri færð og þess háttar. Nándin við lögregluþjónana hvað þetta varðar skiptir máli.

Þess vegna ætti hlutverk ríkisins frekar að vera að koma til móts við dreifbýlissveitarfélög og styrkja og efla þar þjónustu lögreglunnar í öryggis- og almannaþjónustumálum. Ég vil bara draga þetta fram vegna þess að í umræðum um lögreglumál virðist henni alltaf vera stillt þannig upp að hún sé fyrst og fremst einhver andstæðingur almenns íbúa á einhvern hátt eða að hún sé alltaf að leita að einhverjum sökudólgum. Ég vil leggja áherslu á að eigi að vera algjör aukaþáttur en ekki meginmál, þótt nauðsynlegur sé við ýmsar aðstæður en virðist oft vera dregið fram sem helsta hlutverk hennar.

Af breytingum sem hér er verið að leggja til á umdæmi verkefnis sýslumannanna er t.d. að sýslumaðurinn í Borgarnesi fari með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal. Þó að allar fjarlægðir séu að styttast með bættum samgöngum er ég ekki viss um að þetta sé endilega besta ráðstöfunin. Á það hefur verið bent að býsna langt sé milli Búðardals og Patreksfjarðar, þar sem hinn sýslumaðurinn er þá, það þykir ærin vegalengd, og nú á að fara að lengja hana enn með því að yfirstjórn lögreglumála verði annars vegar frá Borgarnesi og hins vegar frá Patreksfirði og reyndar kannski ekki fyrr en á Ísafirði. Ég hefði talið að það ætti að skoða að styrkja löggæsluna í Búðardal og það mætti athuga að byggja upp þjónustu á Reykhólum eða í þeim hluta Austur-Barðastrandarsýslu sem er í bestum samgöngulegum tengslum við Búðardal. Það mætti t.d. staðsetja tvo til þrjá lögreglumenn í Búðardal, eða í Búðardal og á Reykhólum, sem litu lögreglustjórn sýslumannsins í Búðardal. Mér finnst mjög hæpin ráðstöfun að leggja lögreglustjórnina í Búðardal niður og færa hana í Borgarnes, eins og hér er verið að leggja til. Ég tel nauðsynlegt að farið sé mjög ítarlega ofan í þetta í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.

Sama er reyndar að segja um lögreglustjórnina á Hólmavík en í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hún fari undir Ísafjörð. Það er nú bara svo að Hólmavík er ekkert í neinu sérstöku þjónustusambandi við Ísafjörð. Þarna eru líklega milli 200–300 kílómetrar á milli og þjónustuleiðin frá Hólmavík hefur gjarnan legið inn Strandir og suður á bóginn. Þannig að þjónustulega er samleið með Ísafirði hvað þetta varðar að mínu viti ekki svo nærtæk. Væri þá nær að huga að auknu samstarfi milli Hólmavíkur og Búðardals. Ég tala nú ekki um þegar vegur verður kominn yfir Arnkötludal að þá má heldur horfa á þetta svæði sem þjónustueiningu ef nauðsynlegt er að stækka hana. Mér finnst því sú hugmynd að setja sýslumanninn yfir lögregluna í Hólmavík vera mjög umdeilanleg og það eigi að fara vandlega ofan í það af nefndinni hvort þarna sé verið að fara skynsamlega að.

Þarna má nefna fleiri sýslumannsembætti sem verið er að skera af lögreglustjórnina. Til dæmis með lögreglustjórn umdæmis sýslumanns á Höfn, að með það fari sýslumenn á Eskifirði og lögreglustjóraumdæmi sýslumannsins í Vík, fari sýslumaðurinn á Hvolsvelli. Vel má vera að eitthvað af þessum atriðum geti verið skynsamleg. En ég tel samt mjög mikilvægt að farið sé rækilega ofan í þau í nefnd. Menn skilgreini fyrir sér þjónustuhlutverk lögreglunnar og sýslumannsembættanna og hvort ekki megi þá huga að víðtækari verkefnum þeirra sem þarna starfa, frekar en að vera að skera af.

Því það er nú svo að því fjær sem stjórnunin fer því óvirkara verður þetta og því fjær færist öll ákvarðanataka og öll þjónusta frá íbúunum, sem er þróun sem við upplifum reyndar allt of oft og er að mínu viti röng. Við eigum að færa þjónustuna og ábyrgðina sem næst íbúunum og til þeirra sem eru umboðsaðilar á vettvangi en ekki færa hana fjær eins og hér er verið að leggja til í ákveðnum tilvikum.

Þá er hér talað um rannsóknardeildirnar líka, sérstakar rannsóknardeildir, og að skipta landinu niður í umdæmi hvað það varðar. Það finnst mér líka þurfa nákvæmrar skoðunar við. Sjálfsagt þarf að fara ofan í skilgreiningar á hlutverki þessara umdæma, á hvaða forsendum verið er að skipta landinu í umdæmi með þessum hætti. En það er a.m.k. ljóst að verið er að leggja upp einhvers konar höfuðmiðstöðvar. Kannski er það undirbúningur að því að leggja niður í áföngum eða veikja þau sýslumannsembætti og lögreglustjóraembætti sem áfram fá að vera og búa þau undir að verða lögð niður eða starfsemi þeirra takmörkuð enn frekar. Það er greinilega eitthvað slíkt sem er innbyggt í það sem verið er að leggja hér upp, að skipta landinu í umdæmi sem smám saman taka yfir með þessum hætti.

Lagt er til að hjá lögreglustjóranum á Akranesi verði rannsóknardeild fyrir lögreglustjórann í Borgarnesi og Stykkishólmi. Á Ísafirði verði deild fyrir Vestfirði alla frá Hólmavík til Patreksfjarðar, sem vantar mikið upp á enn þá að séu í samgöngulegum tengslum, t.d. Patreksfjörður og Ísafjörður stóran hluta af árinu vegna vegasamgangna, þar eru ekki beinar vegasamgöngur á milli. Því verður ekki séð að þetta sé besta leiðin, að slá þeim saman undir eina slíka rannsóknardeild með yfirumsjón með þessum málefnum, eins og hér er lagt til.

Tökum síðan Norðurland. Það er kannski fráleitasta dæmið þar sem gert er ráð fyrir að lögreglustjórinn á Akureyri fari með rannsóknardeild og umboð lögreglustjórans á Blönduósi, Sauðárkróki og Húsavík. Nú eru bæði Húnavatnssýslur og Skagafjörður nokkuð stór landsvæði og býsna fjölmenn byggð. Mér finnst einboðið, ég verð að segja það, að sérstök rannsóknardeild og sú miðstöð sem henni fylgir verði staðsett í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslum. Einnig er það svo að umferðin, þjónustuumferðin, liggur fyrst og fremst suður á bóginn úr Skagafirði, frá Blönduósi og frá Húnavatnssýslum frekar en norður á bóginn til Akureyrar. Samgöngu- og þjónustutengsl eru því miklu minni í þá áttina og því mjög óeðlilegt að setja málið þannig upp að Akureyri verði eins konar miðstöð fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur hvað þetta varðar. Auk þess skiptir líka máli fyrir þetta landsvæði, Skagafjörð og Húnavatnssýslur, að þetta starf sé staðsett þar, það treystir þá þjónustukjarna sem þar eru og eflir þá á alla lund í þessum málaflokkum. Þess vegna tel ég mjög hæpið að ætla að gera Akureyri að miðstöð fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur hvað þetta varðar og ég hygg reyndar að bæði Skagfirðingar og Húnvetningar séu óvanir því að vera settir undir Akureyri og finnst það ekki hugnanlegt í þessum málum frekar en mörgum öðrum.

Allt þetta verður að skoðast í hv. allsherjarnefnd sem væntanlega fær frumvarpið til umsagnar. Þangað koma bæði umsagnir og sýn íbúanna, fólksins á þessum svæðum, sem eiga í rauninni að hafa mest um þessi mál að segja því að þessi þjónusta snýr að þeim. Fólkið á þessum svæðum sem á að vera notendur og njóta þessarar þjónustu lögreglunnar og sýslumannsembættanna á að hafa mest um það að segja hvernig hún er uppbyggð og hvernig henni er stýrt innan landsvæðanna.

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta mál að sinni. Ég hafði forgöngu um utandagskrárumræðu fyrr á þessu þingi um þessi mál þar sem ég og hæstv. dómsmálaráðherra skiptumst á skoðunum um þau og ég kom með áherslur viðlíka þeim sem ég hef nefnt hér. Ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd, sem fær málið til umfjöllunar, vinni það betur og við fáum vonandi að sjá frumvarpið í breyttri mynd þegar það kemur til 2. umr.