132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[17:46]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra er við sama heygarðshornið. Nú tekur hæstv. dómsmálaráðherra þátt í einhverjum dylgjum um varaformannskjör mitt og dregur það inn í þetta mál. Ég get alveg upplýst hæstv. dómsmálaráðherra, sem var ekki á þeim blessaða landsfundi, að það var ekkert óeðlilegt við framkvæmd þeirrar kosningar sem ég hlaut þar. Það hefur ítrekað verið staðfest af öllum þar til bærum aðilum. Ég skil ekki hvernig hæstv. dómsmálaráðherra dettur í hug að lepja upp rógburð og lygi sem hefur birst varðandi þá kosningu. Ég nota því þetta tækifæri og svara því til að það er ekkert til í því og það er með ólíkindum að hæstv. dómsmálaráðherra kynni sér ekki málið aðeins betur áður en hann dregur það hér inn í ræðu á Alþingi.

Hæstv. dómsmálaráðherra segir að auðvitað eigum við að búa í frjálsu, opnu samfélagi. Ég deili að minnsta kosti þeirri lífsskoðun með honum. Ég set hins vegar spurningarmerki þegar ég skoða áhersluatriði og þau frumvörp sem koma frá hæstv. dómsmálaráðherra. Og þá á ég, sem þingmaður, að spyrja: Á hvaða vegferð erum við?

Ef við skoðum öll þessi mál í samhengi virðist þar vera rauður þráður að því að þrengja, skerða persónuréttindi og opna á auknar heimildir lögreglu í eina átt. Auðvitað hef ég áhyggjur af því. Ég hefði líka haldið að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áhyggjur af þessu. Eins og reynslan á mínum stutta þingferli hefur sýnt mér samþykkja hv. stjórnarþingmenn allt möglunarlaust sem kemur frá hæstv. ráðherrum. Það er áhyggjuefni.

Ég ætla ekkert að lengja þetta sérstaklega. Ég hef ekki enn þá fengið svör við spurningum mínum sem eru málefnalegar. Ég mun þá bara taka þær spurningar upp í allsherjarnefndinni og spyrja embættismennina fyrst ég fæ ekki hæstv. ráðherra til að svara fyrir sitt eigið frumvarp og vona að ég fái eitthvað út úr þeim.