132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

213. mál
[18:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum veldur því að ég klóra mér nú svolítið í kollinum því ég sé að það er enginn af þingmönnum Frjálslynda flokksins sem er á meðal flutningsmanna. (GÖrl: Sigurlín var með.) Satt best að segja þykir mér það svolítið skrýtið, því að ég átti von á að við hefðum stutt þetta góða mál en ég man ekki til þess að það hafi verið borið undir okkur. Þó sýnist mér að einn varaþingmaður sem sat á þingi á sínum tíma, hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, hafi verið meðal flutningsmanna þegar þessi þingsályktunartillaga var flutt hér áður, en hún hefur því miður ekki átt kost á því að setjast inn á þing af óviðráðanlegum orsökum sem ég ætla ekkert að fara nánar út í við þetta tækifæri.

Nóg um það, virðulegi forseti, hér er á ferðinni mjög gott mál, sanngirnismál, sem ég hygg að þingflokkur minn styðji eindregið enn í dag eins og við hljótum að hafa gert þegar þetta mál var hér til umræðu áður. Ég verð a.m.k. að segja það fyrir mína parta að ég styð þetta heils hugar. Það er dýrt að ættleiða börn og það er ósanngjarnt að þeir foreldrar sem ættleiða börn erlendis frá þurfi alfarið að bera þann kostnað á herðum sínum og ég hygg að allir réttsýnir menn og konur hljóti að sjá það óréttlæti sem í því felst og það ætti ekki að vera mikið mál að greiða úr þessu. Við erum ekki að tala hér um háar fjárhæðir, alls ekki, og því hygg ég að þinginu væri sómi að því að afgreiða þessa þingsályktunartillögu bæði fljótt og vel.