132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

213. mál
[18:55]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þetta mál og kannski má segja að málið sé svo einfalt að það krefjist ekki langrar ræðu. En fyrst og fremst kem ég hérna í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við málið af því að ég er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur að því. Hv. þingmaður gerði í framsögu sinni vel grein fyrir málinu, bæði rökum fyrir því að við komum á styrkjum til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum og ýmsum tölulegum upplýsingum um fjárstyrki sem foreldrar á hinum Norðurlöndunum sem ættleiða börn frá útlöndum njóta. Hún greindi einnig frá ýmsum öðrum fróðleik sem á að hjálpa þingmönnum til að gera upp hug sinn og móta sér afstöðu í málinu.

Ég get sem von er litlu við það bætt en ég vil aðeins í þessu samhengi nefna það að við í hv. heilbrigðisnefnd, sem ég geri ráð fyrir að þessu máli verði vísað til að umræðu lokinni, erum m.a. að ræða núna frumvarp um réttarstöðu samkynhneigðra. Þetta er eitt af því sem við höfum rætt í þessu samhengi og það er náttúrlega ljóst að þeir sem þurfa á tæknifrjóvgun að halda, hvort sem um er að ræða gagnkynhneigða eða samkynhneigð pör, njóta til þess fjárstyrks frá ríkinu og það háttar nefnilega þannig til í flestum tilvikum að þeir sem sú meðferð ber ekki árangur hjá þurfa síðan í kjölfarið að fara þessa leið. Ég ætla ekki að útiloka að það séu þó ekki einhverjir foreldrar sem kjósa þessa leið frekar en tæknifrjóvgunarleiðina ef þeir geta þetta ekki á þennan náttúrulega hátt, eins og kallað er. En oft er það nú þannig að þeir sem fara þessa leið eru búnir að ganga í gegnum erfiða meðferð, bæði andlega og líkamlega, og kostnaðarsama í sumum tilvikum, hvort sem fólk hefur reynt einu sinni, tvisvar eða þrisvar að fara þá leið, og síðan kemur þetta í ofanálag. Þá finnst manni óeðlilegt að ríkið sé ekki tilbúið til að styrkja þá foreldra sem þurfa að ráðast í þetta.

Raunveruleikinn er líka sá að við þurfum sífellt að sækja lengra eftir börnum til ættleiðinga og því fylgir jafnframt aukinn kostnaður. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að bara svona siðferðilega finnst mér að með því að veita þessum foreldrum ekki fjárstuðning séum við í rauninni að setja ákveðnar hindranir í veg þeirra sem vilja gerast foreldrar barna sem eru munaðarlaus annars staðar í heiminum. Mér finnst að við eigum að hvetja frekar til þess en hitt.

Svo, eins og hefur verið bent á af foreldrum sem hafa ættleitt eða langar til að ættleiða, þá er alveg ljóst að við búum mjög vel að þeim sem þurfa að fá tæknifrjóvgun og þurfa að fá aðstoð frá heilbrigðisþjónustunni. Við búum almennt mjög vel að verðandi mæðrum með hvers konar þjónustu sem öll er þeim að kostnaðarlausu, hvort sem það eru sjúkrahúsin, meðgöngueftirlitið og síðan ungbarnaeftirlitið. Við erum í rauninni á allan hátt að hvetja til barneigna, sem er eðlilegt að við gerum út frá aldurssamsetningu þjóðarinnar til lengri tíma litið og gera þetta sjálfsagt af því að við viljum að sem flestir njóti þeirrar þjónustu sem tryggir heilbrigði móður og barns.

Eins og hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir kom inn á þá vegur það líka töluvert þungt í mínum huga, af því að við erum svo oft að bera okkur saman við hin Norðurlöndin, að á öllum hinum Norðurlöndunum, þó að fjárhæðirnar séu misjafnar, er verið að styrkja foreldra sem vilja ættleiða börn erlendis frá. Og af því að við leggjum nú svo mikið stundum og í sumu samhengi upp úr norrænu lagasamræmi, þá tel ég að það séu líka veigamikil rök fyrir því að við hugum að því í þessu máli að bæta þarna úr og koma á styrkjum til þessara foreldra.

Við vitum að að hluta til heyra ættleiðingar undir dómsmálaráðuneytið. Tillagan sjálf á þingskjalinu gengur út á að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að setja þessar reglur. Sjónarmiðin eru m.a. þau að allt sem lýtur að börnum eigi að vera á einni hendi hjá Tryggingastofnun. Þeir sem þurfa tæknifrjóvganir heyra undir sjúkratryggingar, fæðingarorlofið hefur verið þar staðsett o.s.frv. Ég ætla ekki að taka afgerandi afstöðu til þessa hvar mér finnist þetta eiga að vera staðsett innan stjórnsýslunnar og ég geri ráð fyrir að það fái eins og annað umræðu í heilbrigðisnefnd eftir að málinu hefur verið vísað þangað. Það er kannski ekki það sem skiptir öllu máli, þó að það sé nú svo sem aldrei verra að það liggi ljóst fyrir hvar ábyrgðin liggi innan stjórnsýslunnar. En ég geri ráð fyrir að við ræðum þetta í nefndinni með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og eftir atvikum fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu sem ættleiðingarmálin að öðru leyti heyra undir. En ég hef örlítinn fyrirvara um það hver niðurstaðan verður. En sem lokaorð mín vildi ég, herra forseti, bara árétta að þetta þingmál hefur minn fulla stuðning og vil ítreka að þær fjárhæðir sem við erum að tala um eru ekki það háar að það eigi að ráða því hvaða framgang málið fái.