132. löggjafarþing — 66. fundur,  14. feb. 2006.

Styrkir til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum.

213. mál
[19:01]
Hlusta

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka mjög málefnalega, faglega og innihaldsríka umræðu um þetta brýna mál. Þetta er að vísu ekki stórt mál og kostar ekki mikið af peningum. En það er mikilvægt að sinna þessum hópi og barneignum hans jafnt og öðrum foreldrum.

Ég vil líka taka fram, vegna orða hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að það varð handvömm. Þau mistök urðu að einn af þingmönnum Frjálslynda flokksins var flutningsmaður málsins frá upphafi. Einhvern veginn datt það milli skips og bryggju en ég veit vel af styrkum og góðum stuðningi Frjálslynda flokksins við þetta mál.

Þegar ég flutti málið fyrst hafði ég tillögu um að málið heyrði undir dómsmálaráðuneyti, af því að þar eru ættleiðingarnar. En vegna umsagna um málið, öllum þeim rökum sem þar voru tilgreind, taldi ég eðlilegt að málið félli undir Tryggingastofnun, en þar er allt er lýtur að rétti barnanna, foreldra, fæðingarorlofs, sjúkrasjóða o.s.frv. Þannig mundum við líka jafna réttinn á við meðgönguna og í raun væri þar allt á einum stað.

Ég vil enn á ný, herra forseti, þakka góða umræðu. Ég veit að hún verður ekki síðri í heilbrigðisnefnd.