132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:06]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í tilefni þessara orða vil ég einungis að það komi skýrt fram að ég tel að það felist ákveðin tækifæri í samkomulagi Kennarasambandsins og hæstv. menntamálaráðherra sem er til staðar. Ég tel alveg nauðsynlegt að þau tækifæri séu nýtt. Menn hafa deilt harkalega um það hvort eigi að stytta framhaldsskólann um eitt ár eða ekki. Hæstv. menntamálaráðherra hefur dregið klær sínar inn í skel og það er gott, það er vel. Það gefur okkur tækifæri til að vinna áfram að málinu. Kennaraforustan komst inn í málið með því að gera þetta samkomulag um tíu skref til sóknar í skólamálum. Inni í þeim tíu skrefum eru ákveðin atriði sem kennarar hafa verið að berjast fyrir að nái í gegn um árabil. Ég tel því vera hér til staðar ákveðinn jarðveg sem við verðum öll að nýta vel.

Ég heyri ekki annað á máli hæstv. ráðherra en hún ætli sér að nýta þennan tíma vel og hún gefur hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni greinilega ekki afdráttarlaus svör um hvort frumvarpið komi fram í vor. Ég teldi raunar ekki ráðlegt að hæstv. ráðherra komi fram með frumvarpið í vor. Ég tel að það eigi að gefa tíma núna í þessa vinnu til að athuga hvort hin ólíku sjónarmið sem tekist hafa á varðandi kröfuna um styttingu framhaldsskólans nái ekki sáttum. Ég tel samkomulagið vera grunn að sátt. Mér finnst skipta máli að staðið sé þannig að verkum að ekki séu yfirlýsingar á báða bóga og ég fagna því í sjálfu sér að hæstv. ráðherra skuli ekki koma í ræðustólinn með yfirlýsingu um að hún ætli samt að stytta framhaldsskólann um eitt ár eins og hún gerði fyrir nokkrum vikum þegar við vorum að fjalla um þessi mál, sennilega fyrir um tveimur vikum þegar samkomulagið var skrifað, gott ef það var ekki sama dag, þá þótti mér hæstv. ráðherra vera ósáttari við það að komin væri einhver staða sem mætti segja að hún þyrfti að bakka með einhverja hluti. Nú finnst mér hún ekki vera eins (Forseti hringir.) ósátt og þá. Ég tel það vera merki um að jarðvegurinn sé að vera tilbúinn undir mjög góða hluti sem upp geta risið af samkomulaginu.