132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:08]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda Björgvini G. Sigurðssyni fyrir málefnalega framsögu. Það er ekki oft sem stjórnarandstæðingar koma hingað gagngert til að hrósa ráðherrum en það gerðist í þetta skipti og ég held að hv. þingmaður sé maður að meiri að hafa gert það.

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að mjög skynsamlegt er að vinna þetta á þennan hátt og mjög æskilegt ef hægt væri að ná víðtæku samráði og samvinnu milli aðila eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur beitt sér fyrir í þessu viðkvæma máli. Þess vegna er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að koma hér upp og hrósa hæstv. ráðherra fyrir þessi vinnubrögð. Þau eru mjög mikilvæg og mjög æskilegt að eins góð sátt náist og mögulegt er þó að sjálfsögðu sé það þannig þegar menn takast á um mál eins og þessi þá næst kannski ekki alger samstaða en þetta er án nokkurs vafa afskaplega gott skref sem þarna var stigið. Ég er algerlega sammála hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um að þarna stóð hæstv. menntamálaráðherra mjög vel að verki og á mikið hrós skilið.

Ég veit að Samfylkingin hefur haft það á stefnuskránni mjög stíft um langa hríð að stytta stúdentsprófið niður í þrjú ár og margar yfirlýsingar hafa fallið í þinginu og annars staðar vegna þess máls. Það er vissulega eitthvað sem gæti gefið okkur mörg tækifæri og stóra málið er auðvitað það að lífskjör og tækifæri þjóðarinnar byggja að mjög stórum hluta, kannski stærstum hluta á góðu menntakerfi. Við eigum að setja markið þannig að við viljum vera best í heimi og okkur hefur tekist að mörgu leyti vel hvað það varðar, meira að segja mjög vel og við höfum verið mikið í sókn undanfarin ár eins og allar tölur sýna. En við verðum alltaf að vera vakandi og ávallt að hugsa um að ná betri árangri og sækja fram og ég met það að þessi umræða sé liður í því.