132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:13]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það var hæstv. ráðherra, Björn Bjarnason, sem fyrstur kom fram með þessar hugmyndir í því formi sem við þekkjum, að taka menntaskólann og framhaldsskólann og þrýsta honum í þrjú ár. Það var síðan eftirmaður hans, Tómas Ingi Olrich, núverandi sendiherra, sem kom með þessar hugmyndir í stuttri ráðherratíð sinni og má segja að honum hafi ekki enst aldur í embætti til að ná þeim fram. Honum var kannski fátt um verk í þessu máli. Síðan tók núverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þetta í arf og flutti það því miður á sama hátt og Björn Bjarnason, frumkvöðull málsins.

Við í Samfylkingunni höfum verið að horfa á þetta nánast frá því að sá flokkur varð til og verið áfram um að menn gætu komist með ýmsum hætti um þessa námsbraut alla. Fyrst vorum við að skoða það sem hét stytting náms til stúdentsprófs með þeim sama hætti og þessir ráðherrar sem ég nefndi, en ekki leið á löngu að við sáum að í raun og veru hafði tíminn tekið völdin af þeirri hugmynd vegna þess að skólakerfið hafði lagað sig að mörgu leyti að vilja nemenda og mismunandi áhuga þeirra á þessum málum. Við lögðum þess vegna áherslu á að þetta skólakerfi allt yrði undir og þær breytingar yrðu gerðar sem þyrfti að gera á skilum grunnskóla og framhaldsskóla og jafnvel framhaldsskóla og háskóla til að þetta yrði sveigjanlegt og gott.

Ég fagna því þess vegna núna þegar hæstv. menntamálaráðherra, sem við höfum rætt nokkuð við um þessi mál og önnur í salnum, er komin með kennurum landsins á þessa sömu skoðun. Ég verð að segja að sú mildi og það vit sem menntamálaráðherra sýnir nú er henni mjög til hróss og ég vona að vegur hennar fari batnandi með þessum hætti í framtíðinni.