132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Samkomulag Kennarasambandsins og menntamálaráðherra.

[12:15]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Í upphafi er rétt að fagna því hve mikil ró og spekt er yfir þessari umræðu um menntamál. Það er því miður ekki alltaf svo. Mér sýnist sem hér falli allt í afskaplega góðan farveg og allir séu tilbúnir til að skoða hvort hægt sé að flýta eitthvað fyrir að auka líkur á að stærri hópur ljúki framhaldsskóla fyrr en verið hefur. Það er augljóst mál að hæstv. menntamálaráðherra hefur skipt um gír, sem er fagnaðarefni. Vonandi næst sæmileg sátt við skólasamfélagið um þá leið sem farin verður að þessu markmiði, t.d. með því að skólakerfið verði skoðað í heild sinni. Stuðla þarf að sveigjanleika milli skólastiga.

Mér heyrist sem hæstv. ráðherra hafi opna fyrir að sá starfshópur sem nú starfar á vegum hæstv. ráðherra um verknám geti að einhverju leyti komið inn í þessa mynd. Nú er ekki boðað, með einhverjum dagsetningum eða fyrir fram gefnum forsendum, frumvarp fyrir vorið varðandi þetta mál heldur virðist það opið, að það bíði jafnvel til haustsins til að tryggja betra samkomulag eða að það verði lagt fram í vor og samþykkt í haust. En möguleikarnir eru fyrir hendi og það er afskaplega mikilvægt.

Það er einnig mikilvægt að búið sé að eyða þeirri óvissu sem á tímabili virtist milli félaga, jafnvel hjá Kennarasambandi Íslands. Yfirlýsing frá þeim í morgun sýnir að öll félögin standa sameiginlega að yfirlýsingunni og að menn hafa gert sér grein fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki fallið frá því markmiði sínu að stytta námstíma til stúdentsprófs, eins og það er orðað, úr 14 árum í 13. Það er vísun til þess að skoða eigi skólakerfið í heild sinni en ekki eingöngu, eins og hefur því miður oft verið talað um, að það sé bundið við að stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú.