132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér áðan fór fram umræða sem er hluti af mikilli umræðu í samfélaginu, um nám til stúdentsprófs. Þar er um mikilvægt mál að ræða. Það þarf að nýta tímann vel og fara með varfærni í breytingar á námi til stúdentsprófs. Þar er margs að gæta.

Ég heyrði fyrir nokkru að meðalnámstími til stúdentsprófs á Íslandi væri fimm ár. Þetta vakti athygli mína og mér fannst það ótrúlegt. En ég er næsta viss um að þetta er rétt. Heimildirnar sem vísað var í voru opinberar. Ég tel mikilvægt að fá sundurgreiningu á lengd námstímans svo að hægt sé að taka tillit til mismunandi aðila við hugsanlegar breytingar á náminu sem unnið er að undir stjórn hæstv. menntamálaráðherra. Ég veit að margir fullorðnir taka sér mörg ár til að safna einingum til stúdentsprófs. Hið sama er að segja um fjarnema. Það er hið besta mál að fólk geti stundað nám með þessum hætti og safnað einingum í próf og haldið áfram að læra. Eins kann vinna með námi að hafa nokkuð að segja í þessu efni.

Ég spurði reyndar ekki hvort munur væri á kynjum eftir lengd á námi til stúdentsprófs. En það væri mjög forvitnileg breyta og eins hvort munur er á tímalengd til stúdentsprófs eftir aldri nemenda við upphaf náms. Það er sannarlega efni í aðra fyrirspurn.

Spurningarnar sem ég spyr hæstv. menntamálaráðherra eru:

1. Hve langan tíma tekur nám til stúdentsprófs að meðaltali hjá öllum nemendum annars vegar og hins vegar að frátöldum fjarnemum?

2. Hve langan tíma tekur námið að meðaltali í fjölbrautaskólum annars vegar og menntaskólum hins vegar, að frátöldum fjarnemum?