132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert svar og merkileg fyrirspurn og gott að það liggi fyrir inni í umræðunni um námshraða og styttingu á námi. Það vakti einmitt athygli á dögunum í máli Jóns Torfa Jónassonar, prófessors í háskólanum, að um leið og námshraði og aldur íslenskra stúdenta er hærri en víðast í Evrópu og á Norðurlöndunum þá er útskriftaraldur úr háskólum hins vegar sá sami og síst hærri hér, jafnvel lægri hér en sums staðar annars staðar. Það er svolítið merkilegt í þessu ljósi þar sem skólakerfið þar útskrifar nemendur fyrr sem stúdenta yfirleitt.

Þetta er merkileg umræða og jákvætt að tölur liggi henni til grundvallar. Fjölbrautaskólarnir spanna litríka flóru og breiða og eðlilega er þessi tala hærri þar. En markmiðið er, eins og við höfum talað fyrir undanfarin missiri, að fjölga þeim sem útskrifast fyrr og þessi tala undirstrikar það svo rækilega að það þarf að gera með öllum góðum ráðum.