132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Stúdentspróf.

358. mál
[12:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Að mörgu leyti má taka undir síðustu orð hv. þm. og fyrirspyrjanda Önnu Kristínar Gunnarsdóttur varðandi stúlkurnar. Það einkennilega við þær niðurstöður er að stúlkurnar hafa ekki sama sjálfstraust í námi og strákarnir. Strákarnir eru fullir af sjálfstrausti en ná ekki sama árangri. Þetta er m.a. ein af þeim niðurstöðum sem við sjáum í Písa-rannsókninni sem væri gaman að fara betur yfir við betra tækifæri. Auðvitað er mér ofarlega í huga það samkomulag sem við höfum gert við kennarasambandið og þar er m.a. einn punktur sem snertir náms- og starfsráðgjöf í skólanum. Ég tel það afar brýnt verkefni að við förum gaumgæfilega yfir þau skil, 9. og 10. bekkinn, og síðan fyrsta árið í framhaldsskóla til að reyna að leiðbeina nemendum, m.a. inn á þeirra áhugasvið og það svið sem þau telja sig spjara sig hvað best á. Hvar liggur áhuginn? Hvar er hann? Ég held að það skipti mjög miklu máli að við beinum þeim nemendum ekki í bóknám eða starfsnám sem síðan hentar ekki að fara inn á þær brautir. Það er gjarnan þannig að menn fara sjálfkrafa í bóknámsskólana án þess í rauninni að vera að hugleiða mikið hvert leiðin liggur og svo öfugt.

Það skiptir miklu máli að námsráðgjöfin sé efld á síðari stigum í grunnskóla og á fyrstu stigum í framhaldsskóla. Það er hlutur sem við ætlum að fara vel yfir. Ég tel líka rétt að draga fram námstæknina. Hún er m.a. dregin fram í hinni títtnefndu bláu skýrslu sem snertir breytta námsskipan til stúdentsprófs. Þar er lögð mikil áhersla á að breyta námstækninni og m.a. leggja aukna áherslu á (Forseti hringir.) heimanám og heimavinnu.