132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að reynslan sýni að það er algild regla að því nær sem ábyrgð á opinberri þjónustu er færð notendum því betri verður hún. Við sem eigum börn í grunnskólunum í Reykjavík höfum fundið það á okkar eigin fjölskyldum hversu miklu betri skólinn hefur orðið eftir að borgin tók hann yfir.

Það kom mér á óvart að hæstv. ráðherra hafði eiginlega allt á hornum sér varðandi getu sveitarfélaganna. Ég hélt að Sjálfstæðisflokkurinn væri valddreifingarflokkur og ég hélt að hann væri lýðræðissinnaður flokkur sem vildi flytja verkefni til fólksins í landinu. Á tímabili, frú forseti, hélt ég að hæstv. ráðherra hefði orðið fyrir svipaðri reynslu og postulinn Páll, sem þá hét Sál, á leiðinni til Damaskus. Hún var hér fyrr í morgun ekkert nema blíðan og það var hægt orðið að tala við hana. Hún var hætt að hreyta ónotum í fólk. En í ræðu sinni áðan fór hún auðvitað að skammast út í Samfylkinguna fyrir að hafa tvær skoðanir á þessu máli. (Menntmrh.: Er það eitthvað viðkvæmt?) Hæstv. ráðherra hafði eina skoðun í upphafi málsins en þegar hún lauk ræðu sinni var hún komin á allt aðra skoðun.