132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að grunnskólinn væri heimaskóli. Það er rétt. En framhaldsskólinn á líka að vera heimaskóli í sveitarfélögunum og í framtíð sveitarfélaganna, sterkra sveitarfélaga, stærri en núna, á auðvitað að vera framhaldsskóli. Það er ekki þannig að slíkur framhaldsskóli verði eitthvað minna fjölbreyttur en hann yrði hjá ríkinu. Sveitarstjórnarmenn munu örugglega sjá til þess að reknir verði framhaldsskólar sem gefa möguleika á fjölbreytni. Það er engin ástæða til að koma í veg fyrir að fólk geti valið á milli skóla þó skólarnir fari til sveitarfélaga. Þess vegna held ég að hæstv. ráðherra ætti að vinna að þessu máli. Hún ætti að hafa mjög góða skoðun á því og láta skoða málið. Það liggur á að gera það því við þurfum auðvitað að efla og stækka sveitarfélögin innan skamms og sem allra fyrst þrátt fyrir (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin og hæstv. félagsmálaráðherra hafi klúðrað stækkunarmöguleikunum í bili.

(Forseti (JBjart): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin. Þau eru stutt. Þetta eru stuttar athugasemdir við fyrirspurnir.)