132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Rekstur framhaldsskóla.

443. mál
[12:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Úrtölur hæstv. ráðherra undir lok ræðunnar yfir þeirri hugmynd að færa framhaldsskólann til sveitarfélaganna þóttu mér með nokkrum ólíkindum. Þær voru algerlega óþarfar. Þetta voru nákvæmlega sömu rökin og voru notuð gegn flutningi grunnskólans á sínum tíma. Ég vil bara segja við hæstv. ráðherra: Hlustaðu minna á embættismennina og taktu um málið pólitíska ákvörðun. Fyrsta skrefið er að gera reynslusamning við sveitarfélag, fá heimild til þess á þinginu og vinna sig þannig áfram að markinu. Það er alveg á hreinu að það mundi leiða til þess að framhaldsskólinn allur yrði fluttur yfir.

Mér var nokkuð brugðið yfir að heyra hve illa hæstv. ráðherra tók í hugmyndina svona þegar leið á ræðuna. Hún talaði sig upp í að þetta væri ekki mál sem kæmi, að hennar mati, nánast til greina þó svo að mátt hefði skilja hana sem svo, hæstv. ráðherra, að bærist formleg beiðni frá sveitarfélögunum yrði málið skoðað. Allir vita að undir liggur mikill vilji hjá sveitarfélögunum, mörgum hverjum a.m.k., til að taka að sér fleiri verkefni og taka yfir rekstur framhaldsskólans þó svo að víða strandi á vantrú á milli ríkis og sveitarfélaga og togstreitunni yfir tekjustofnum og fjármögnun á milli ríkis og sveitarfélaga. En að sjálfsögðu á að stefna að því að flytja skólann yfir og gefa honum þannig frelsi til að þróast. Það er alveg örugglega skólanum til bóta og við mundum fá miklu betri framhaldsskóla út úr því.

Úrtölur hæstv. ráðherra voru tæknikratismi. Þetta var bara undansláttur, tæknikratismi og undansláttur. Þessi úrlausnarefni er að sjálfsögðu hægt að ná utan um fari slík vinna í gang af alvöru. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þetta mikilvæga mál komist á dagskrá, ekki síst af því að nú er kosið til sveitarstjórna í vor — það er bara gott að þetta mál fari þar inn í umræðuna — og beiti sér fyrir því að framhaldsskólinn verði færður frá ríki til sveitarfélaga.