132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Rekstur svæðisútvarps á sér alllanga sögu á Ísland. Nú er rekið svæðisútvarp fyrir Norðurland, Austurland, Vestfirði og Suðurland en ekki á Vesturlandi. Mér er kunnugt um að almenningur og sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi hafa lýst áhuga á að fá svæðisútvarp á svæðið enda er reynsla þeirra sem njóta þeirrar þjónustu sú að hún sé ekki einungis gagnleg heldur mjög skemmtileg.

Ég minnist þess með mikilli ánægju þegar farið var að útvarpa á landsrásunum efni úr svæðisútvarpi að austan og vestan. Maður fékk fréttir og lýsingar á lífinu á Austurlandi og Vestfjörðum, sem maður hefði alls ekki komist á snoðir um ella. Það hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt.

Vesturland er eini landshlutinn sem nýtur ekki þessara aðstæðna. Nú eru komin tvö ár síðan sett var upp svæðisútvarp á Suðurlandi, eftir að Sunnlendingar höfðu barist fyrir svæðisútvarpi um langa hríð. Ég vona að niðurstaðan verði ekki sú að Vestlendingar þurfi að berjast jafnlengi fyrir sínu útvarpi og þeir fái að sitja við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar svæðisútvarp. Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra:

Hefur ráðherra hafið undirbúning að stofnun svæðisútvarps á Vesturlandi og ef svo er, hvenær er fyrirhugað að það taki til starfa?