132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spyr mig hvort ég hafi hafið undirbúning að stofnun svæðisútvarps á Vesturlandi og ef svo er, hvenær fyrirhugað sé að það taki til starfa? Ef hv. þingmaður gerir ráð fyrir því að umrætt svæðisútvarp verði á vegum Ríkisútvarpsins þá er rétt að benda á að í lögum um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, er skýrt kveðið á um sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Af því leiðir að menntamálaráðherra hefur ekki umboð til að hefja undirbúning að stofnun svæðisútvarps á vegum Ríkisútvarpsins, hvort heldur er á Vesturlandi eða annars staðar á landinu. Rétt er að vekja athygli á því að það eru útvarpsstjóri og útvarpsráð sem taka slíkar ákvarðanir.

Hins vegar vil ég geta þess að Ríkisútvarpið hefur upplýst að undirbúningur að stofnun svæðisútvarps á Vesturlandi sé ekki hafinn. En sá kostur hefur að sjálfsögðu verið skoðaður. Hins vegar er eðlilegt að ekki sé að vænta neinna ákvarðana um frekari starfsemi á vegum stofnunarinnar að svo stöddu máli á meðan rætt er um framtíðarskipan útvarpsmála og frumvarp um Ríkisútvarpið, sem er nú til meðferðar og umfjöllunar hjá hv. menntamálanefnd Alþingis.