132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svæðisútvarp á Vesturlandi.

486. mál
[13:06]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er ekki undarlegt að Vestlendingar sækist eftir því að fá svæðisútvarp því að þeir sem hafa kynnst þjónustu svæðisútvarpanna, fylgst með dagskrárgerð þeirra og fréttum sem þar eru unnar, sakna þess þegar þeir koma í aðra landshluta, að þar skuli ekki vera útvarpsstöð sem fer svipuðum höndum um efnið og gert er á svæðisstöðvunum.

Við fáum iðulega fréttir á svæðisstöðvunum sem hvergi heyrast annars staðar. Þar er fræðsla um ýmis málefni innan héraðs og koma oft ekki í fréttir fyrr en þá löngu síðar á landsstöðvarnar. Ég held að þetta sé ákaflega gott til að byggja undir þá reynslu manna að mikið er um að vera á landsbyggðinni og eðlilegt sé að þaðan berist fréttir. Ég hvet menntamálaráðherra til að leggja þessu máli lið.